Aldur, staður og stund

Samkvæmt frétt BBC hækka laun mest á þrítugsaldrinum og er það talið stafa af því að starfsfólk byrji á lágu kaupi og afli sér fljótt þekkingar og reynslu sem eykur verðmæti viðkomandi starfskrafts. Síðan hægist á launahækkunum á fertugs- og fimmtugsaldrinum, þar sem laun hækka eingöngu um 1-2% á ári, og lækka þau svo enn fremur eftir því sem fólk nálgast eftirlaunaaldurinn. Í greininni er líka bent á að hingað til hafi hver kynslóð þénað meira en sú á undan og að þannig þéni þeir sem eru fæddir snemma á áttunda áratugnum um það bil 16% meira á 28. aldursári en þeir sem eru fæddir seint á sjötta áratugnum.

Að skipta um starf

Eitt af því helsta sem nefnt er í greininni er það að skipta um starf en það virðist auðveldara að semja um hærra kaup á nýjum vinnustað. Þannig hækkuðu laun þeirra sem héldu áfram að starfa hjá sama fyrirtæki um 0,6% árið 2018, eftir verðbólgu. En launin hjá þeim sem skiptu um starf hækkuðu meira en sjöfalt samanborið við hinn hópinn, eða um það bil 4,5%.

Þá séu til leiðir til þess að auka launavöxt eins og að leggja stund á háskólanám. Þó að það geti tafið fyrir starfsreynslu þá leiðir það oftar en ekki til launahækkana út þrítugsaldurinn.

Að flytjast búferlum

Annað sem nefnt er í greininni er það að flytjast búferlum en árið 2016 fylgdi því 9% launahækkun að skipta um starf og flytja. Fólk í Bretlandi hefur þannig gjarnan flutt til borga á borð við London, Edinborg eða Manchester þar sem úr meiru er að velja og hærra kaup í boði. Þrátt fyrir þessa staðreynd er minna um að yngra fólk flytji vegna starfstækifæra. Greinarhöfundur telur hugsanlegar skýringar á því til dæmis vera þær að nú sé minna atvinnuleysi og að launahækkanir standi hreinlega ekki undir húsnæðiskostnaði. Þá kemur fram að leiga hafi hækkað um meira en 90% á þeim svæðum þar sem laun eru hæst en um 70% á þeim svæðum þar sem laun eru lægst. Eftir situr að ungt fólk í dag er oftar en ekki mun minna hreyfanlegt en þau eldri.

Kyn spilar inn í

Þá getur kyn líka haft umtalsverð áhrif á launahækkanir. Greinarhöfundur bendir á að ein skýringin liggi hugsanlega í því að algengara sé að konur séu í hlutastarfi sem sé stundum verr borgað á klukkutíma en full vinna. Fram kemur að árið 2018 hafi meira en helmingur breskra mæðra verið í hlutastarfi samanborið við einn af hverjum tíu karlmönnum. Þá er bilið einna mest þegar starfsfólk er á sextugsaldri en þá eru konur þó ennþá líklegri til þess að vera í hlutastarfi en ástæðurnar fyrir því orðnar aðrar. Þannig sinni fjórðungur eldri kvenna á vinnumarkaði ólaunaðri vinnu, til dæmis við það að sinna foreldrum sínum eða barnabörnum, samanborið við áttunda hvern karl á vinnumarkaði.

Annað sem nefnt var sem hugsanlegur áhrifaþáttur var einfaldlega það hversu mikið fólk fær í kaup til að byrja með en á undanförnum tveimur áratugum hafa laun hlutfallslega hækkað mest hjá þeim allra lægst launuðu og þeim allra hæst launuðu. Síðasta atriðið sem talið er upp í grein BBC er svo hreinlega það hversu afkastamikill starfskraftur hver og einn er en það er skýrt samhengi á milli vinnuframlags og þess sem vinnuveitandi er tilbúinn að greiða fyrir.