Eins og þekkt er orðið skartaði leikkonan og leikstjórinn Natalie Portman svartri Dior-skikkju á nýliðinni Óskarsverðlaunahátíð. Í skikkjuna var búið að sauma nöfn kvikmyndagerðarkvenna sem henni fannst hafa verið litið fram hjá við Óskarsverðlauna-tilnefningarnar í ár. Portman sagði að með því að láta sauma nöfnin í skikkjuna hafi hún viljað minna á það á látlausan hátt hvernig oft er horft fram hjá verkum kvenna við tilnefningarnar.

Leikkonan Jane Fonda hefur barist ötullega fyrir hinum ýmsum málefnum í áratugi. Árið 1972 mætti hún í svartri dragt á Óskarsverðlaunahátíðina til að mótmæla Víetnamstríðinu. En það ár vann hún Óskarinn sem besta leikkona í aðalhlutverki fyrir frammistöðu sína í kvikmyndinni Klute. Undanfarið hefur Jane Fonda haldið regluleg mótmæli gegn aðgerðaleysi stjórnvalda í loftslagsmálum. Hún segist hafa fengið innblástur fyrir mótmælin frá Gretu Thunberg.

Á skikkjunni sem Natalie Portman ber á herðunum eru ísaumuð nöfn kvikmyndagerðarkvenna.

Á föstudaginn, tveimur dögum fyrir Óskarsverðlaunahátíðina var Jane Fonda handtekin í fimmta sinn fyrir þátttöku sína í mótmælunum. Við handtökuna klæddist hún rauðri kápu sem hún hefur lýst yfir að sé síðasta flíkin sem hún muni nokkurn tíma kaupa sér. Með því vill hún hvetja fólk til að kaupa minna af fötum og endurnýta þau frekar í þágu umhverfisins. Tveimur dögum eftir handtökuna mætti hún á Óskarsverðlaunahátíðina klædd rauðum kjól sem hún keypti árið 2014 og kápunni frægu, sem hún hélt á þegar hún tilkynnti hvaða kvikmynd hreppti Óskarinn sem besta myndin.

Sýna samstöðu með því að klæðast samlitum fötum

Á Golden Globe-verðlaunahátíðinni árið 2018 klæddust flestar Hollywood-stjörnurnar svörtu, til að styðja #MeToo-baráttuna og sýna samstöðu með þeim sem höfðu stigið fram og sagt frá kynferðislegri áreitni innan kvikmyndabransans. En það eru ekki bara Hollywood-stjörnur sem hafa nýtt tísku til að koma skilaboðum á framfæri. Að nota föt í ákveðnum lit sem tákn um samstöðu eða til að vekja athygli á málefnum á sér langa sögu á fleiri vígstöðvum.

Þingkonur Demókrataflokksins í Bandaríkjunum klæddust hvítu til að sýna samtöðu þegar Donald Trump flutti stefnuræðu sína.

Á tímum súffragettanna snemma á síðustu öld var hvítur litur tákn um samstöðu kvenna. Þegar bandaríska þingkonan Alexandra Ocasio-Cortez sór embættiseið í fyrra, yngst allra kvenna í stjórnmálasögu Bandaríkjanna, klæddist hún hvítri buxnadragt í anda súffragettanna til að heiðra baráttukonur fyrir jafnrétti. Þingkonur Demókrataflokksins í Bandaríkjunum hafa einnig notað hvítan klæðnað til að sýna samstöðu. Á dögunum tóku þær sig saman annað árið í röð og klæddust hvítu þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti hélt stefnuræðu sína.

Hollywood leikkonur ásamt aktívistanum Tarana Burke klæddust svörtu á Golden Globe hátíðinni fyrir tveimur árum.

Eliza Reid, forsetafrú Íslands, klæddist hvítri dragt í haust þegar hún tók á móti Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, og varaforsetafrúnni Karen Pence en margir hafa velt fyrir sér hvort pólitísk skilaboð hafi búið þar á bak við. En það er ljóst að vilji fólk í áberandi stöðum koma skilaboðum á framfæri og ná til fjöldans, hvort sem það er á varfærinn hátt eða ágengan, þá eru fötin sem það velur tilvalin til slíkra gjörða.