Átta listamenn eiga verk á sýningunni Fallandi trjám liggur margt á hjarta í Kling & Bang í Marshallhúsinu. Sýningarstjóri er Helena Aðalsteinsdóttir.

„Ég er mjög mikil áhugamanneskja um vísindaskáldskap, sérstaklega femínískan vísindaskáldskap. Í bókmenntum er lesandinn dreginn á ótrúlega sterkan hátt inn í heim rithöfundarins. Ég velti því fyrir mér hvernig væri hægt að gera þetta sama á sýningu þannig að áhorfandinn yrði eins og gestur á nýrri plánetu þegar hann kæmi inn í sýningarsalinn. Þetta var hugmyndin á bak við sýninguna,“ segir Helena og bætir við: „Mig langaði til að búa til rými þar sem femínískar frásagnir fengju að njóta sín. Þarna er ekki verið að nota vísindaskáldskap til að forðast raunveruleikann heldur frekar til að kafa dýpra inn í hann. Sögurnar sem móta heimssýn okkar eru enn þann dag í dag frásagnir feðraveldis. Femínískur vísindaskáldskapur endurskrifar þessar frásagnir. Sýningin skoðar framlag kvenna og jaðarhópa og varpar ljósi á fjölbreyttari viðhorf til tilvistar okkar á jörðinni.“

Spurð hvort verk listamannanna séu lík segir Helena: „Listamennirnir á sýningunni koma frá mörgum ólíkum áttum og leita í persónulegan reynsluheim í gerð verkanna sinna. Hér eru þeir að varpa fram mismunandi framtíðarsýnum, en þegar verkin koma saman áttar maður á sig á því að það eru mörg líkindi á milli þeirra. Það er kannski hægt að túlka það sem sameiginlegt ákall um breytingar og framtíð fyrir alla.“

Líffæri unnin úr keramik eftir hönnuðinn Elínu Margot.
Fréttablaðið/Anton Brink

Líffæri og köngulær

Elín Margot er fransk-íslenskur hönnuður sem sýnir líffæri unnin úr keramik. „Þarna eru stórir kúplar tengdir við keramikskúlptúra. Verkið er gosbrunnur þannig að það er flæði á milli kúplanna og í þeim ræktar Elín Margot te, sem hún vinnur úr bakteríum úr sínu nánasta umhverfi. Hún er að ímynda sér framtíðareldhús og verkið kallar fram spurningar um það hvar líkaminn endar og hvar fæðan byrjar,“ segir Helena.

Köngulær úr stáli eftir Dýrfinnu Benitu Basalan mæta gestum og verða æ meira áberandi því lengra sem farið er inn í salinn og í stærsta rýminu er köngulóahreiður. „Dýrfinna sér sjálfa sig í köngulónni sem er kvenleg, hættuleg og á jaðrinum. Hún sér fegurð og árásarhneigð í köngulónni sem þarf að taka yfir rými til að verða sýnileg.“

Samtal manns og náttúru

Bára Bjarnadóttir sýnir hljóðverk. „Hún er að fjalla um samtal manns og náttúru. Hún gerir þetta mjög myndrænt í einlægu viðtali við móður sína og Bára ímyndar sér hvernig það væri að vera tré á landi móður sinnar. Hún veltir fyrir sér hvernig upplýsingar ferðast milli ólíkra vitunda og hvernig við erum í stöðugu samtali við umhverfið okkar.“ segir Helena.

Að lokum nefnir Helena verk eftir Tarek Lakhrissi sem hún segir tengjast beint inntaki sýningarinnar. „Þetta er stuttmynd sem fjallar um geimveruinnrás á jörðina. Þar er verið að kollsteypa valdapíramídanum því geimverurnar stela öllum valdamestu mönnum heimsins. Í stað þess að fagna grípur um sig ákveðin sorg vegna óréttlætisins sem hefur átt sér stað í heiminum, en eftir það er mögulegt að byggja bjartari framtíð.“

Sýningunni lýkur 9. maí og opið er miðvikudaga til sunnudaga.