Legó-skipasmiðurinn ungi, Brynjar Karl Birgisson, mætti í Titanic-safnið í Tennessee í Bandaríkjunum hvar risalíkanið sem hann gerði af Titanic úr 56.000 Legó-kubbum verður haft þar til sýnis næstu misserin.
Brynjar Karl fékk hlýjar móttökur eins og meðfylgjandi myndband sem safnið hefur birt á Facebook-síðu sinni sýnir.
Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær fjallaði CNN vandlega um skipasmíði Brynjars sem hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli vestan hafs fyrir. Það tók hann á sínum tíma ellefu mánuði og rúmar 700 klukkustundir að klára kubbafleyið.
Sjá einnig: Lego-Titanic Brynjars komið til hafnar í Tennessee
Uppáklædd „áhöfn“ Titanic tók á móti honum í sal sem virðist nokkuð nákvæm eftirlíking af innviðum skipsins sögufræga. Þá ávarpaði „skipstjórinn“ Brynjar og hrósaði honum fyrir smíðaafrekið
Skipstjórinn spurði Brynjar meðal annars hvort hann áttaði sig á hversu gríðarlegur fjöldi ætti eftir að sjá skipið hans á safninu og benti honum á að sjálfsagt yrði afrek hans mörgum innblástur og hvatning til þess að láta drauma sína rætast.
En sjón er sögu ríkari og um að gera að horfa á myndbandið sem fer hægt af stað en hverrar mínútu virði.
Athugasemdir