„Eins og nafnið gefur til kynna þá er ég að vinna mikið með næmina á þessari sýningu sem verður alltumlykjandi,“ segir Sindri Leifsson listamaður sem opnar sýninguna Næmi, næmi, næm í Ásmundarsal í kvöld.

Sem áður er Sindri mikið að vinna með timbur í verkum sínum og vísar mikið í skógarheiminn á sýningunni, en hann notar efnivið frá Hellisheiði og Hólmsheiði í skúlptúrana á sýningunni.

„Ég fékk líka tvö þúsund lítra af viðar­kurli frá Skógræktarfélaginu í Reykjavík sem mun spila veigamikið hlutverk,“ segir Sindri símleiðis, á meðan hann gengur um og undirbýr sýningarrýmið. „Það brakar í kurlinu undan fótunum á mér og það er gríðarmikil lykt sem fylgir þessu þegar gengið er inn í rýmið. Gestir munu ganga inn í heim þar sem öll skilningarvitin fara á fullt.“

Fjölhæft lerki

Á sýningunni er stefnt á að örva öll skilningarvit gestanna og þar verður lögð sérstök áhersla á bragðskynið. Þar veltir Sindri fyrir sér spurningunni hvort matur geti verið list, ásamt Kjartani Óla Guðmundssyni veitingamanni og Jóhönnu Rakel Jónasdóttur myndlistar- og tónlistareinstaklingi.

„Auk almennu innsetningarinnar sem verður opnuð í dag hef ég verið að vinna með þeim að þremur kvöldverðarboðum. Þar höfum við búið til marg­rétta matseðil þar sem gestum er boðið inn á risastórt langborð,“ segir Sindri. „Allur maturinn er gerður undir áhrifum þeirra verka sem eru til sýnis á sýningunni. Þetta er ákveðið samtal sem við höfum átt til að útbúa listaverk sem eru æt.“

Sindri segir að þríeykið hafi fyrst og fremst hugsað um matinn sem mat, en hagað því þannig að hægt sé að líta á hann sem listaverk. „Maturinn breytist í myndlist og myndlistin í matargerð,“ útskýrir Sindri.

Eitt verkið á sýningunni eru lerki­standar sem gerðir eru fyrir einmitt einn chili-pipar en á kvöldverðarboðunum skipta standarnir um hlutverk og gegna stöðu diska. „Það kemur skúlptúr á borðið fyrir hvern og einn sem fær réttinn á nokkurra kílóa þungum lerkidiski,“ segir Sindri. „Sá réttur er í raun og veru búinn til út frá því hvernig skúlptúrinn varð til. Við erum að leyfa okkur að brjóta aðeins upp formið hvað varðar bæði list og matargerð.“

R&B (rapp og bláskel)

Af þeim pörunum sem verða í boði segist Sindri einna spenntastur fyrir bláskel og hipphoppi.

„Þar verður færð bláskel á borð og einmitt þá verður blastað hipphopplagi í bakgrunni,“ segir Sindri. „Hljóðmyndin er líka inni í skynjuninni. Þetta mun umlykja mann alveg.“

Þótt sýningin sé að stórum hluta samvinnuverkefni segir Sindri hana vera framhald af sinni eigin myndlist.

„Ég hef verið að vinna með náttúruleg hráefni og reyni að leyfa hráleikanum að njóta sín innan verkanna í bland við meira unna fleti,“ segir hann.

Sýningin hefst klukkan 18 í kvöld en hægt er að kaupa miða á kvöldverðarboðin á heimasíðu Ásmundarsalar.