Kristján hefur búið í Dan­mörku síðan 1992 þar sem hann rekur eigið fyrir­tæki í kringum leik­listar­starf­semi. „Það gengur mjög vel. Ég ræð til mín fólk, leikara, dansara og sirkus­fólk og við ferðumst um allan heim með sýningar. Og nú erum við hér.“

Þreyttur Vincent

Árið 2014 sýndi Borgar­leik­húsið sýningu Kristjáns Blam! Sú sýning fékk Reu­mer­t-verð­launin og Sprota­verð­laun Grímunnar. Room 4.1. Live, sem var til­nefnt til Reum­ert-verð­launanna, varð til fyrir þremur árum. „Sýningin byggir á ör­þáttum sem ég hef gert á netinu og heita Room for One og má finna á www.room4.one. Þeir fjalla um Vincent, náunga sem er þreyttur á lífinu, fjöl­skyldunni og vinnunni og lætur leggja sig inn á sjúkra­hús til að sleppa frá öllu þessu. Þegar maður lokar sig inni þarf maður fyrir al­vöru að takast á við ýmsa hluti, þannig að á­standið versnar þegar hann kemur á sjúkra­húsið.

Það var mjög gaman að búa þessa þætti til og ég á­kvað að búa til sýningu um ferlið. Í Room 4.1. Live leik ég leik­stjóra sem er að búa til þætti um Vincent. Sýningin er viða­mikil og þar stíga á svið leikarar frá Borgar­leik­húsinu og dansarar frá Ís­lenska dans­flokknum á­samt leikurum frá mínu fyrir­tæki. Tækni­menn Borgar­leik­hússins og fólk sem vinnur þar er einnig á sviðinu. Á­horf­andinn gengur inn í rými sem er eins og stúdíó og síðan fer verkið á flug. Undir lokin er á­horf­endum boðið að verða þátt­tak­endur í sýningunni og taka því boði ef þeir vilja.“

Hugmyndir verða ekki spennandi ef það er ekki eitthvað alvarlegt á bak við þær.

Öðru­vísi sýning

Sýningin er nokkuð öðru­vísi en leik­hús­gestir eiga að venjast. Kristján segir hana nær bíói en leik­húsi. „Ég skapa sýningar sem byggjast fyrst og fremst á hinu líkam­lega. Texti er ekki undir­staða sýningarinnar og hefur aldrei verið. Samt er meiri texti í þessari sýningu en áður, í sumum sýningum mínum hefur nánast ekki verið neinn texti. Sýningin byggist aðal­lega á því líkam­lega, á­hættu­at­riðum og hálf­gerðum fim­leikum.“

Hann segir verkið vera grát­bros­legt. „Hug­myndir verða ekki spennandi ef það er ekki eitt­hvað al­var­legt á bak við þær. Ég vinn lengi að hverri sýningu því það fer svo mikill tími í að þróa hana. Ég er með alls konar hug­myndir og ég geri til­raunir með þær til að sjá hvað virkar best. Ég nota sviðs­mynd og leik­muni mjög mikið. Kannski má segja að ég vinni eins og mynd­listar­maður sem kemur aftur og aftur að sama verkinu og hugar að öllum smá­at­riðum.“