Kristján hefur búið í Danmörku síðan 1992 þar sem hann rekur eigið fyrirtæki í kringum leiklistarstarfsemi. „Það gengur mjög vel. Ég ræð til mín fólk, leikara, dansara og sirkusfólk og við ferðumst um allan heim með sýningar. Og nú erum við hér.“
Þreyttur Vincent
Árið 2014 sýndi Borgarleikhúsið sýningu Kristjáns Blam! Sú sýning fékk Reumert-verðlaunin og Sprotaverðlaun Grímunnar. Room 4.1. Live, sem var tilnefnt til Reumert-verðlaunanna, varð til fyrir þremur árum. „Sýningin byggir á örþáttum sem ég hef gert á netinu og heita Room for One og má finna á www.room4.one. Þeir fjalla um Vincent, náunga sem er þreyttur á lífinu, fjölskyldunni og vinnunni og lætur leggja sig inn á sjúkrahús til að sleppa frá öllu þessu. Þegar maður lokar sig inni þarf maður fyrir alvöru að takast á við ýmsa hluti, þannig að ástandið versnar þegar hann kemur á sjúkrahúsið.
Það var mjög gaman að búa þessa þætti til og ég ákvað að búa til sýningu um ferlið. Í Room 4.1. Live leik ég leikstjóra sem er að búa til þætti um Vincent. Sýningin er viðamikil og þar stíga á svið leikarar frá Borgarleikhúsinu og dansarar frá Íslenska dansflokknum ásamt leikurum frá mínu fyrirtæki. Tæknimenn Borgarleikhússins og fólk sem vinnur þar er einnig á sviðinu. Áhorfandinn gengur inn í rými sem er eins og stúdíó og síðan fer verkið á flug. Undir lokin er áhorfendum boðið að verða þátttakendur í sýningunni og taka því boði ef þeir vilja.“
Hugmyndir verða ekki spennandi ef það er ekki eitthvað alvarlegt á bak við þær.
Öðruvísi sýning
Sýningin er nokkuð öðruvísi en leikhúsgestir eiga að venjast. Kristján segir hana nær bíói en leikhúsi. „Ég skapa sýningar sem byggjast fyrst og fremst á hinu líkamlega. Texti er ekki undirstaða sýningarinnar og hefur aldrei verið. Samt er meiri texti í þessari sýningu en áður, í sumum sýningum mínum hefur nánast ekki verið neinn texti. Sýningin byggist aðallega á því líkamlega, áhættuatriðum og hálfgerðum fimleikum.“
Hann segir verkið vera grátbroslegt. „Hugmyndir verða ekki spennandi ef það er ekki eitthvað alvarlegt á bak við þær. Ég vinn lengi að hverri sýningu því það fer svo mikill tími í að þróa hana. Ég er með alls konar hugmyndir og ég geri tilraunir með þær til að sjá hvað virkar best. Ég nota sviðsmynd og leikmuni mjög mikið. Kannski má segja að ég vinni eins og myndlistarmaður sem kemur aftur og aftur að sama verkinu og hugar að öllum smáatriðum.“