Einar Kári Jóhannsson, Jóhannes Helgason, Kristín María Kristinsdóttir og Styrmir Dýrfjörð standa að Unu útgáfuhúsi. Útgáfan er með metnaðarfulla þýðingaseríu sem hófst með meistaraverkinu Beðið eftir barbörunum eftir J. M Coetzee og nýjasta bókin er Brjálsemissteinninn brottnuminn, eftir Alejandra Pizarnik.

„Með Unu útgáfuhúsi lögðum við upp með að gefa út góðar bókmenntir, bæði eftir íslenska höfunda og vandaðar þýðingar. Þannig vildum við stuðla að innrás nýrra strauma í íslenskan bókmenntaheim,“ segir Einar Kári. „Þýðingar eru eitt helsta áhugamál okkar, það er alltaf gaman að lesa góðar bókmenntir en það er sérstök nautn að upplifa þær á móðurmálinu. Þýðingar stækka menningu okkar og tungumál, til þess að geta náð utan um þennan víðfeðma heim á íslensku er mikilvægt að þýða lýsingar alþjóðlegra rithöfunda á umhverfi sínu og aðstæðum. Við sjáum líka marga leita frekar í enskuna og viljum sérstaklega benda ungu fólki á að mikið af íslenskum þýðingum eru á heimsmælikvarða.“

Vandað til verka

Spurður um hugmyndina á bak við þessa nýlegu áskriftarröð segir Einar Kári. „Sígild samtímaverk, eins og við skilgreinum þau, eru merkileg bókmenntaverk frá öllum heimshornum eftir misþekkta höfunda frá 20. og 21. öld. Hið gildishlaðna orð „sígilt“ er því notað í stærra samhengi en bara yfir undirstöðurit vestrænna bókmennta. Við leggjum áherslu á að verkin tali til samtímans og undirstrikum það með ítarlegum eftirmálum sem fylgja hverri bók. Einnig vöndum við til verka í frágangi og hönnun, en útlit bókanna er nýstárlegt. Á bakhliðinni er flipi sem er brotinn saman yfir kápuna, hann má svo nota sem bókamerki við lestur, og í staðinn fyrir mynd á kápu er textabrot, því textinn sjálfur skiptir mestu máli.“

Langur listi af bókum

Um valið á bókum og þýðendum segir hann: „Til að byrja með ákváðum við að finna þýðingar sem fólk átti í skúffunni. Við leituðum að hugsjónafólki sem hafði dundað sér við að þýða merkilegar bækur en fyrir ýmsar sakir ekki komið þeim út. Fyrsta bókin í röðinni, Beðið eftir barbörunum, var til að mynda þýdd fyrir útvarp snemma á níunda áratugnum en kom ekki út á bók fyrr en nú, í endurskoðaðri útgáfu. Við munum einnig ráða þýðendur, enda með langan lista af góðum bókum sem þurfa að koma út á íslensku.

Fyrsta bókin, Beðið eftir barbörunum, er ein helsta skáldsaga Nóbelsskáldsins J.M. Coetzee frá Suður-Afríku. Það er táknræn saga um kúgun og völd sem talar einkar sterkt til samtímans. Næst kom úrval ljóða og texta eftir Alejandra Pizarnik frá Argentínu. Hún var ansi mögnuð skáldkona sem þorði að rannsaka ýmsa kima sálarlífsins og mannlegs eðlis sem flestir hika við eða forðast.“

Spurður hvaða bækur séu væntanlegar segir Einar Kári: „Eitt af því sem gerir áskriftarraðir skemmtilegar er að vita ekki hvað kemur næst fyrr en bókin læðist inn um lúguna. En ég get ljóstrað því upp að næstu tvær bækur verða eftir konur. Sú fyrri var brautryðjandi í upphafi síðustu aldar og hin er stórstjarna í bókmenntaheiminum nú í upphafi 21. aldar.“

Skapa umræðu

Hann segir viðtökur hafa verið mjög góðar. „Fjölmargir hafa lýst yfir ánægju sinni með bækurnar og þær hafa hlotið einróma lof gagnrýnenda. Það er einnig ánægjulegt að sjá þær skapa umræðu, til dæmis hefur Beðið eftir barbörunum verið notuð í kennslu.“

Þýddar fagurbókmenntir seljast því miður ekki í bílförmum hér á landi. „Við vissum að þetta yrði barátta, en vonum að með tímanum nái ritröðin sterkri fótfestu,“ segir Einar Kári. „Áskriftarformið er lykillinn að því að svona gangi upp og með því að skrá sig í áskrift er fólk því að stuðla að útgáfu góðra þýðinga. Hægt er að skrá sig á heimasíðunni okkar, www.utgafuhus.is, og fá tvær bækur heimsendar á ári, eina að vori og aðra að hausti. Bækurnar rata svo auðvitað líka í allar helstu bókabúðir.“