„Ekkert bendir til að breytingar verði á lífsstílnum á næstunni. Ég uni mér vel á hjólinu og það er stutt í vinnuna frá heimili mínu þannig að hjólinu verður ekki lagt. En ég verð að muna að æfa mig að keyra,“ segir Ágúst Borgþór Sverrisson, rithöfundur og blaðamaður á DV, sem fékk ökuréttindi í gær eftir dálítið hark og áralanga eyðimerkurgöngu með útrunnið ökuskírteini.

„Ég hafði samband við föðurbróður minn, Guðmund Norðdahl, 72 ára gamlan ökukennara með tæplega hálfrar aldar reynslu í faginu, og þann 14. september stend ég síðan allt í einu uppi með ökuréttindi eftir tæplega 30 tíma og blóðugar skammir frænda míns fyrir slakar beygjur og aðra hnökra sem saman hafa verið yfirunnir.“

Ekið inn í sjötugsaldurinn

Reiðhjólið hefur lengi verið Ágústi mikilvægt samgöngutæki og honum hefur líkað bíllausi lífsstíllinn ákaflega vel og bílprófið hvergi nærri til marks um uppgjöf í þeim efnum.

„Það er rótgróinn vani að ganga eða hjóla flestra minna ferða og þiggja far í lengri ferðir. Ég er hins vegar kominn á þann aldur að lífið er mestallt í þægindahring og vana. Þannig að ég lít á þetta sem leið til að fara út úr þægindahringnum,“ segir Ágúst sem verður sextugur í vetur en getur nú ekið eins og fínn maður til móts við sjötugsaldurinn.

Bílstjóraferill Ágústs Borgþórs verður síðan enn sérkennilegri þegar hann er spurður hvort hann hafi virkilega ekki tekið bílpróf 17 ára gamall.

„Nú gerist sagan enn skrýtnari, ef það var þá hægt. Ég tók reyndar bílpróf 18 ára gamall, eftir þrábeiðnir bróður míns, sem var og er atvinnubílstjóri, og hann borgaði meira að segja ökutímana mína,“ segir Ágúst og skellir sér í annan gír.

Ágúst Borgþór lukkulegur með Gvendi frænda sem kom honum í gegnum bílprófið eftir 30 tíma og eitt rautt ljós.
Mynd/Aðsend

Slakur bílstjóri og óöruggur

„Þetta gekk ekki áfallalaust því ég féll tvisvar á verklega prófinu en náði því þriðja skipti. Ég hafði hins vegar ekki aðgang að bíl, var afar slakur og óöruggur bílstjóri og hafði ekki áhuga á bílum,“ segir Ágúst sem árum síðar áttaði sig á að hann hafði ekki endurnýjað ökuskírteinið eins og lög gera ráð fyrir.

„Ég vaknaði upp við þann vonda draum að ég hafði ekki keyrt mjög lengi, ég kunni varla að keyra, og ökuskírteinið var útrunnið. Ég gaf mér að þetta þýddi að ég þyrfti að taka ökunámið allt upp frá grunni. Annað átti reyndar eftir að koma í ljós.“

Ágúst segir aðspurður að fólki hafi auðvitað þótt skrýtið að hann væri ekki með bílpróf. Sérstaklega eftir því sem hann varð eldri. „En þetta kemur sjaldan til tals og fólk gerir bara sjálfkrafa ráð fyrir að maður sé með bílpróf.“

Fall á rauðu ljósi

Ágúst Borgþór bakkar síðan aðeins og víkur aftur að regluverkinu í kringum ökunám heldri borgara. „Það reyndist eftir allt saman vera misskilningur að taka þyrfti upp allt ökunámið. Ég var búinn að klára Ökuskóla I á netinu og taka fjórtán ökutíma þegar ég trítlaði til sýslumanns til að sækja um æfingaakstur.

Þar var mér hins vegar sagt að ég fengi engan æfingaakstur þar sem ég hefði tekið próf áður og það eina sem ég þyrfti að gera væri að fara í verklegt hæfnispróf. Við Gvendur frændi héldum þá áfram að keyra og ég tók próf í byrjun september. Ekki gekk það betur en svo að ég féll á prófinu, fór yfir á rauðu ljósi.“

Langar í lítinn bíl

Ágúst Borgþór og Gvendur frændi létu rauða ljósið ekki hrekja sig út í skurð og héldu áfram að keyra. „Og í gærmorgun, þann 14. september, fór ég aftur í hæfnispróf og nú gekk það hnökralítið og ég er kominn með réttindi til að aka fólksbíl.“

En áttu bíl?

„Við eigum Honda CRV jeppling árgerð 2017. Mig langar dálítið til að kaupa mér smábíl því það er þægilegra að keyra litla bíla en það er auðvitað bölvað bruðl að bæta öðrum bíl við heimilishaldið, og ekki umhverfisvænt. Þannig að næsta skref er að æfa mig á Hondunni hennar Erlu minnar og þá undir hennar leiðsögn,“ segir Ágúst ökuþór Sverrisson og rennir sér inn á beinan og breiðan veginn.