„Ég fann þetta bara í pappa­kassa uppi á lofti,“ segir leik­stjórinn Ágúst Guð­munds­son afar kátur með að hafa fundið gamla kasettu þar sem leyndist jóla­lag með honum og Val­geiri Guð­jóns­syni. Lagið ber nafnið Góðan dag og gleði­leg jól! en Ágúst fór rak­leitt með það í raf­ræna vinnslu og nú hafa þeir fé­lagar í hyggju að gleðja þjóðina á tímum far­aldurs og dumbungs í sinni.

Ágúst segir sig ráma í að lagið hafi verið tekið upp 1984 eða 1985. „Kannski jafn­vel fyrr …“ segir hann í­hugull áður en honum snýst hugur. „Nei, ekki fyrr. Árið 1982 kom Með allt á hreinu og lagið er tekið upp eftir hana,“ segir Ágúst.

Stein­gleymdi laginu

Ágúst rifjar upp fyrir­ætlanir sínar um að gera sér­staka jóla­mynd þar sem lagið átti að koma fyrir. Hún átti að vera barna­mynd þar sem jóla­sveinar áttu að koma við sögu. „Hún átti að vera full af ein­hverjum furðu­verum úr ís­lenskri þjóð­trú,“ út­skýrir leik­stjórinn.

Í laginu bregða þeir Ágúst og Val­geir sér í hlut­verk jóla­sveinanna sem lenda í vand­ræðum með rímið. „Eitt at­riðið átti að vera þannig að þeir væru að reyna að semja nýtt lag en lenda í vand­ræðum með rím­orðin, enda gerist það á hverju ári að sömu rím­orðin fara í endur­nýtingu,“ segir leik­stjórinn og lítur um öxl í höll minninganna.

„Og þegar ég hlustaði á lagið aftur þá fannst mér þetta nú tals­vert fyndnara en mig minnti. Og það fannst Val­geiri reyndar líka. Þetta kom honum rosa­lega á ó­vart enda var hann alveg búinn að gleyma þessu.“

Ágúst segist þó ekki ætla að dusta rykið af hand­ritinu góða. Það bíði betri tíma. „Ég er ekkert farinn að hugsa um það. Það eina sem er bita­stætt eftir þetta ævin­týri er þetta lag og allt í einu fór ég að velta fyrir mér: Hvernig var með þetta lag aftur?“ út­skýrir Ágúst.

Hann segir þeirri hugsun hafa lostið niður eins og eldingu í huga sér. „Svei mér þá, hvað kom mér til að hugsa þetta? Ég fór bara allt í einu að hugsa um þetta lag og spurði sjálfan mig: Hvar var þetta lag?“

Gömlu snældurnar á vísum stað

Ágúst viður­kennir að hafa verið dá­góða stund að leita að réttri snældu uppi á lofti. Hann hafi þó verið búinn að koma öllum snældum frá þessum tíma fyrir í sama kassa.

„Ég notaði þær mikið meðal annars þegar við vorum að undir­búa Með allt á hreinu. Þá setti ég kasettu­tæki í gang þegar við vorum að spinna at­riðin,“ út­skýrir Ágúst.

„Þetta gerðum bara við eld­hús­borðið heima hjá mér þar sem Með allt á hreinu fæddist,“ segir leik­stjórinn og nú tón­listar­maðurinn Ágúst Guð­munds­son.