Agnes G. Sveins­dóttir er tuttugu og sex ára gömul, starfar við að­hlynningu í sjálf­stæðri bú­setu og býr í Kefla­vík á­samt unnusta sínum og dóttur. Líf Agnesar er gott í dag en að baki býr mikil sjálfs­vinna eftir á­takan­leg á­föll sem Agnes hefur orðið fyrir.

Fyrir níu árum var Agnes beitt kyn­ferðis­legu of­beldi sem átti eftir að hafa meiri áhrif á lífi hennar en orð geta lýst. Á sama tíma var hún föst í ó­heil­brigðu sam­bandi þar sem hún segist hafa orðið fyrir grófu and­legu of­beldi. Þessi á­föll urðu til þess að Agnes þróaði með sér mikið þung­lyndi og fór að nota mat sem huggun.

„Ég varð að fá eitt­hvað ó­hollt á hverjum degi og þróaði í kjöl­farið með mér matar­fíkn. Ég fékk auð­vitað nokkrum sinnum ógeð á sjálfri mér og prófaði hina og þessa kúra en ég gafst alltaf upp og bætti öllu á mig aftur. Ég ein­fald­lega elskaði sjálfa mig ekki nógu mikið til þess að geta lifað heil­brigðum lífs­stíl,“ segir Agnes í við­tali við Frétta­blaðið.

Agnes hefur glímt við matarfíkn í mörg ár.
Mynd/Aðsend

Í nóvember á síðasta ári hafði Agnes tekið á­kvörðun um að fara í hjá­veitu­að­gerð í Eist­landi en hætti við á síðustu stundu.

„Ég fann að ég var ekki til­búin og ég er ó­trú­lega fegin að ég fór ekki í að­gerðina á þessum tíma. Í staðinn gaf ég mér tíma til þess að vinna betur í and­legu hliðinni og svo fór ég í að­gerðina síðastliðinn ágúst þegar ég var tilbúin. Á þessum tíma náði ég að vinna í sjálfri mér og var komin með hausinn á réttan stað sem skiptir alveg ó­trú­lega miklu máli,“ segir Agnes og bætir við: „Að hafa fengið næstum því heilt ár til þess að taka til í hausnum á mér og byrja að elska sjálfa mig áður en ég fór í að­gerðina hefur hjálpað mér mikið. Ef ég hefði farið í flýti þá hefði allt orðið svo miklu erfiðara and­lega. Vanda­málið með matar­fíknina er að þú getur ekki tekið matinn í burtu frá fíklinum, við verðum að borða. Við getum ekkert hætt að borða.“

„Ég get hlaupið með barninu mínu og ég nýti hvert einasta tæki­færi í það. Mér er aldrei illt í bakinu lengur og það er bara ó­trú­lega geggjað.“

Hjá­veituað­gerðin sem Agnes fór í er fram­kvæmd með fimm skurðum á maga sem er blásinn upp. Í kjöl­farið er tengt fram hjá maganum og út­búið lítið hólf sem getur að­eins tekið á móti 100-150 ml í einu. Þá voru einnig teknir um 60 senti­metrar af þörmum Agnesar.

„Maginn er enn­þá inni í mér og ég get alltaf farið og látið taka að­gerðina til baka ef ég vil. Það var það sem heillaði mig við þessa að­gerð og ég held að þetta sé eina að­gerðin sem hægt er að taka til baka. Í hinum að­gerðunum er fjar­lægður hluti af maganum og maður breytir því auð­vitað ekki,“ segir hún.

Erfitt að takast á við matarfíknina í kjölfar aðgerðar

Það tók Agnesi um fjórar vikur að jafna sig eftir að­gerðina en hún mátti hvorki vinna né hreyfa sig mikið fyrr en átta vikum seinna.

„Mér fannst þetta ekkert mál og verstu dagarnir voru kannski fyrstu þrír dagarnir eftir að­gerðina því þá gat ég náttúru­lega ekki borðað neitt. Ég er samt búin að vera svo ó­trú­lega heppin að hafa ekki upp­lifað neina fylgi­kvilla og hef átt mjög góðan bata,“ segir Agnes sem stundar í dag ræktina af fullum krafti og gætir að því hvað hún borðar.

„Það sem heldur mér inni á sporinu er að fara í ræktina en þá finn ég að mig langar ekkert í ó­hollan mat. Ég er ekki að segja að matar­æði mitt sé full­komið en það er svona 90 prósent sem ég tel mjög heil­brigt. Ég byrjaði á því að fara út að ganga sex daga vikunnar og ég var mjög hrædd við að taka fyrsta skrefið inn í ræktar­sal. Ég var svo hrædd um að fólk færi að dæma út­lit mitt en þegar ég loksins fór tók ég eftir því að það var enginn að pæla í mér og þetta var allt í hausnum á mér. Þegar ég þorði að stíga þetta skref var ekki aftur snúið og í dag elska ég að fara í ræktina, fá þetta adrena­lín kikk, svitna og taka á því. Núna finnst mér ömur­legt ef ég kemst ekki í ræktina í nokkra daga en auð­vitað kemur það fyrir. Þá er svo mikil­vægt að draga sjálfan sig ekki niður fyrir það, heldur halda bara á­fram. Það er ekkert að fara að skemma árangurinn þó maður komist bara þrisvar sinnum í ræktina eina vikuna í staðin fyrir fimm sinnum,“ segir Agnes.

Í kjöl­far að­gerðarinnar upp­lifði Agnes mikla erfið­leika til að byrja með vegna þess að hún þurfti að takast á við matar­fíkilinn í sjálfri sér. Í dag segist hún vera komin yfir það.

„Ég borða, ekki af því að mig langar í eitt­hvað feitt og sætt, heldur vegna þess að ég þarf næringu. Ég borða til þess að næra mig en þetta er rosa­lega and­legt ferli og það skiptir öllu máli að hafa hausinn í lagi, sér­stak­lega þegar þú ert matar­fíkill þá er þetta mjög erfitt,“ segir hún.

Agnesi hefur aldrei liðið betur.
Mynd/Sigtryggur Ari

Undirbúningurinn skipti miklu máli

Fyrir að­gerðina fór Agnes í fjögurra vikna ferli þar sem hún mátti að­eins borða 1200 kal­oríur á dag og segir hún það hafa hjálpað batanum gríðar­lega.

„Fyrstu þrír dagarnir voru ó­trú­lega erfiðir af því að maður er komin með svo stóran maga og ég var stans­laust svöng. Síðan varð þetta allt í lagi og ég held að þetta hafi hjálpað mér rosa­lega mikið. Ég fór líka alveg eftir matar­æðinu og það hjálpaði mér líka með matar­fíknina. Þetta var svona undir­búningur á því að ná alveg tökunum. Þetta var ekki þannig að ég var bara að borða súkku­laði og mætti svo í að­gerð og allt búið.“

Agnes segist hafa á­kveðið að fara í að­gerðina fyrir sjálfa sig og engan annan. Á því ári sem hún tók í undir­búning tókst henni að missa 15 kíló.

„Þetta er það besta sem hefur komið fyrir mig, fyrir utan barnið mitt.“

„Í dag er ég mjög góð en ég var alveg frekar orku­lítil fyrst eftir að­gerðina. Ég finn stundum fyrir smá orku­leysi en ég er með öll víta­mín í lagi. Þetta gerist auð­vitað vegna þess að maður er að inn­byrða tölu­vert færri kal­oríur. Ég var kannski að borða 3000 kal­oríur á dag fyrir að­gerð en ég er bara að borða í kringum 1000 núna. Svo hreyfi ég mig mikið og það er stór á­stæða þess að mér líður svona vel and­lega.“

Agnes gerir sér fulla grein fyrir því að að­gerð sem þessi hafi sætt miklum for­dómum og hefur hún í raun ekki rætt hana opin­ber­lega áður, en hún hafi þó aldrei verið leyndar­mál.

„Ég get ekki sagt að ég hafi fundið fyrir for­dómum en ég hef ekkert verið að aug­lýsa það að ég hafi farið í að­gerð af því að ég veit að það eru for­dómar. Ef ein­hver spyr mig þá hef ég alltaf sagt frá að­gerðinni. Mér er alveg sama hvernig fólk tekur því. Það eru allir á­nægðir fyrir mína hönd sem standa mér næst og ég kvíði ekki fyrir því að upp­lifa for­dóma. En ég hef alveg séð hvernig þeir eru til dæmis á Face­book. Ef ein­hver birtir færslu um árangur þá er alltaf strax stokkið í spurninguna hvort fólk hafi farið í að­gerð. Eins og það sé það sem skipti máli. Ég get alveg farið að borða snakk og nammi núna og haldið á­fram að fitna, það skiptir máli hvað maður gerir eftir að­gerðina. Þetta er á­kveðið hjálpar­tæki sem þú færð og svo þarft þú að vinna út frá því eftir að­gerðina.“

Missti 15 kíló fyrir aðgerð með góðum undirbúning og sjálfsvinnu.
Mynd/Sigtryggur Ari

Hefur aldrei liðið betur

Síðan Agnes tók líf sitt í gegn hefur hún misst 55 kíló og fóru 40 þeirra af eftir að­gerðina.

„Ég í rauninni ræð ekkert við það hvað ég léttist mikið en ég myndi vilja missa svona 20-25 kíló til við­bótar og þá er ég ó­trú­lega sátt. Þá er ég komin í mína kjör­þyngd. Ég vil alveg hafa smá læri og svona en auð­vitað get ég ekki ráðið því hvernig þetta verður. Ég fer eftir því sem ég kalla Biblíuna mína og þar get ég lesið mér til um hvað ég á að borða mikið, hvað gæti farið illa í mig og fleira þess háttar. Ég hef tvisvar sinnum fengið svo­kallað „dumping“ en það getur gerst ef þú borðar eitt­hvað sem fer illa í þig. Þá verður maður allur dofinn og líður eigin­lega eins og maður sé að fá ælu­pest.“

Agnesi segist ekki hafa liðið jafn vel og raun ber vitni í langan tíma. Þung­lyndi hennar var orðið svo gífur­legt vegna van­líðunar í eigin skinni.

„Það að líða vel í eigin skinni er geggjað. Ég er ekki alltaf með­vituð um það að fólk sé að horfa á mig og ég sé alls ekki eftir að­gerðinni. Þetta er það besta sem hefur komið fyrir mig, fyrir utan barnið mitt,“ segir Agnes á­nægð.

Mikilvægt að skoða alla möguleika

Fyrir að­gerð segist Agnes hafa upp­lifað bæði mikla and­lega og líkam­lega kvilla sem séu horfnir í dag.

„Ég var allt of allt of þung og ég fékk alveg að finna fyrir því á líkamanum mínum. Bakið á mér var hand­ó­nýtt og ég gat ekki hlaupið með barninu mínu né hoppað eða leikið við hana of lengi. Í dag get ég farið í ræktina í tvo tíma og ég er ekki að fá hjarta­á­fall,“ segir hún hlæjandi og bætir við: „Ég get hlaupið með barninu mínu og ég nýti hvert einasta tæki­færi í það. Mér er aldrei illt í bakinu lengur og það er bara ó­trú­lega geggjað. Það segir sig náttúru­lega sjálft að ef maður er of þungur þá líður manni ekki vel. Ég held að það sé enginn sem að er allt of þungur sem að líður vel, hvorki and­lega né líkam­lega. And­lega hlið mín í dag hefur ekki verið betri í níu ár og svo fær maður alveg egóið við það að líta allt í einu vel út.“

Agnes segir mikil­vægt að hver og einn velji rétta leið fyrir sig og að ef að á­kvörðunin sé að­gerð að skoða mögu­leikana vel.

„Svo fer þetta líka eftir því hvað maður er hár í BMI og fleira. Ég byrjaði á því að fara til heimilis­læknisins míns sem gaf mér grænt ljós. Í kjöl­farið fór ég í blóð­prufur og síðan fékk ég bestu vin­konu mína með mér út sem er að læra hjúkrunar­fræði. Hún hjálpaði mér mjög mikið og fékk að vera við­stödd að­gerðina sem var frá­bært. Það má segja það að hún hafi fengið að sjá inn í mig sem er frekar skrítið,“ segir Agnes hýr og sátt við sínar á­kvarðanir.