„Framleiðslufyrirtækið Mystery keypti nýlega kvikmyndaréttinn á bókinni og handritsgerðin er hafin,“ segir Óttar í samtali við Fréttablaðið og bætir við að Davíð Óskar Ólafsson muni leikstýra en síðast lágu glæpabrautir þeirra einmitt saman við gerð The Valhalla Murders þar sem hann leikstýrði tveimur þáttum og var með puttana í framleiðslunni.

Bíóbækur

„Ég mun skrifa handritið sjálfur en Davíð Óskar verður mér til halds og trausts,“ heldur Óttar áfram en hann er ýmsu vanur í línudansi milli pappírs og filmu þar sem hann skrifaði skáldsögu beintengda glæpamyndinni Borgríki 2. „Annað dæmi er bókin mín Una frá 2012 sem fer í tökur í ár í leikstjórn Marteins Þórssonar en við skrifuðum handritið, sem er líka talsvert ólíkt sögunni, saman.

Svo má kannski líka segja að Dimmuborgir sé skrifuð ögn undir áhrifum af árum mínum í bíóskrifum, til dæmis þegar kemur að uppbyggingu, strúktúr og kaflaskiptingum, svo umskiptin upp á hvíta tjaldið ætti að ganga ágætlega fyrir sig.“

Órólegar persónur

Dimmuborgir er tíunda skáldsaga höfundarins sem var sex ár að klára hana meðal annars vegna þess að kvikmyndaverkefni, til dæmis Brot, trufluðu hann við skrifin.

Bókmenntarýni berast upplýsingar um andlát besta vinar hans fyrir 25 árum og sannfærður um að hann hafi verið myrtur verður hann heltekinn af leitinni að sannleikanum.
Fréttablaðið/Samsett

Eitthvað sem tók á þar sem persónur bókarinnar vildu síður sitja þegjandi hjá. „Persónurnar létu mig ekki í friði í öll þessi ár, þótt ég hefði engan tíma til að sinna þeim, og bönkuðu sífellt fastar og fastar á hurðina til að fá að komast að,“ segir Óttar um kláðann eftir því að klára bókina.

„Það var svo í feðraorlofinu mínu fyrir tæpum tveimur árum sem ég fékk loksins frið frá bíóverkefnunum, allir leikstjórarnir og framleiðendurnir létu mig í friði, að ég hafði tíma til að klára loksins bókina. Forlagið samþykkti að gefa hana út stuttu síðar og síðan þá hef ég verið að laga smotterí hér og þar.“

Alvöru innblástur

Óróann má sjálfsagt ekki síst rekja til þess að Óttar sækir innblástur í eigin fortíð og raunverulegt eineltismál í grunnskólanum hans, sem er Háteigsskóli í dag, og endaði mjög illa.

Óttar segir þolandann hafa verið strák sem var nokkrum árum eldri en hann. „Sögusviðið er því mikið sótt í eigið líf. Persónur eiga heima í íbúðum sem vinir mínir áttu heima í og eru að gera svipaða hluti og við gerðum.“

Óttar bætir við að bókin gerist á tveimur tímaskeiðum, þó mest í samtímanum. „En líka að hluta til fyrir 25 árum, þarna í kringum Æfingaskólann og Hlíðarnar. Þetta er samt fyrst og fremst skáldsaga sem sækir þó talsvert í reynsluheim sem ég þekki vel.“

Er ekki við hæfi að gefa út skáldsögu í miðju lestrarátaki? Það held ég nú, því í dag kemur skáldsagan mín Dimmuborgir...

Posted by Óttar M. Norðfjörð on Thursday, April 2, 2020