María Karen Sigurðardóttir er formaður Félags norrænna forvarða á Íslandi en dagur forvörslunnar er haldinn í dag á Norðurlöndununum. María Karen er deildarstjóri á Borgarsögusafni Reykjavíkur en sérhæfing hennar er fólgin í pappír, bókum, ljósmyndum og fyrirbyggjandi aðgerðum. Hún er fædd og uppalin á Akranesi, lærði vélsmíði og tók tæknistúdentspróf en hvað skyldi hafa dregið hana að þessu sérstaka fagi? „Ég hef alltaf haft áhuga á handverki og svo fór sagan að blandast saman við, þá ekki síst eðlis- og efnafræði. Ég var að athuga með nám í fornleifafræði þegar mér var bent á þetta fag og það heillaði það mikið að ég fór og lærði þetta við Listaháskólann í Kaupmannahöfn. Þetta sameinaði fyrir mig söguna, listina, handverkið og tæknina og þessi fjölbreytni er það sem gerir þetta fag svo skemmtilegt.“

Aðstæður og ending

Spurð um hvað sé fólgið í forvörslu segir María Karen að hún snúist einfaldlega um að verja og gera við safngripi, nútímalist og annað slíkt sem geti fallið undir menningarverðmæti, bæði samfélags- og persónulega. „Þetta er varðveisla á alls lags gripum sem eru úr ólíkum efnum og þannig fag að maður þarf að hafa innsýn í marga heima þegar kemur að því að vita hvernig efnin endast. Hafa innsýn í efna- og eðlisfræði og svo vissulega listasögu og þar fram eftir götunum. Geta gert sér grein fyrir því hvaða ytri þættir hafa áhrif á gripina eins og hitastig, rakastig, sólarljós, mengun og sitthvað fleira. Út frá þessum ytri aðstæðum má svo reikna út hversu vel hlutirnir endast og það er einmitt eitthvað sem söfn þurfa stöðugt að hafa í huga því þar er stefnt að því að hlutirnir endist sem lengst. Þá erum við að hugsa í öldum og í raun er starf fólks á söfnum líka alltaf þannig að það þarf að þekkja söguna til þess að geta hugað að framtíðinni, geta áætlað hvernig hlutirnir verða þá.“

Þegar rætt er um söfnin á Íslandi þá er oft rætt um húsnæðisvanda og María Karen segir að það sé vel skiljanlegt þar sem við séum í raun ekki að gæta nægilega vel að framtíðinni. „Það er samt ákveðin framþróun því Þjóðminjasafnið okkar stendur framarlega og hér á Árbæjarsafni er komið varðveisluhús þó svo það sé ekki nægilega stórt til þess að taka allan safnkostinn. En í heildina mætti gera betur í húsnæðismálum.“

Nánast eins og húðin

María Karen bendir á að það skipti líka miklu máli úr hverju hlutirnir sem á að varðveita eru gerðir. Í því samhengi megi t.d. benda á að það geti verið snúið að varðveita hluti úr plasti. „Plast er ekki bara plast þó ekkert af því sé umhverfinu gott. Ljósmyndir eru til að mynda úr plasti þó að í því séu efni sem varðveita en skemma ekki. En gripir sem eru að koma inn á söfn eins og t.d. leikfangabílar og brúður úr plasti skemmast. Plastið mýkist upp og verður klístrað og þetta geta líka verið örlög nútímalistaverka sem eru ekki úr nægilega góðu plasti. En það eina sem er hægt að gera við plast til þess að það endist er að setja það í frysti. Hið sama á reyndar við um ljósmyndafilmur og þá sérstaklega litfilmur. Það er gott að halda hita- og rakastigi jöfnu en albest að geyma í frysti eða við mjög lágt hitastig. Ljósmyndin er samt ansi dugleg og lifir ótrúlega margt af en auðvitað er best að forðast sólarljós, raka og fleira. Það er í raun ágætt að hugsa um þetta nánast eins og húðina okkar – hita og rakastig umhverfisins þarf að vera í lagi.“

Ryk er ekki bara ryk

Á mörgum heimilum er að finna ættargripi eða aðra muni sem fólk hefur hug á að varðveita sem best. María Karen segir að skírnarkjólar séu ágætis dæmi. Þá á ekki að geyma í venjulegu plasti eins og t.d. efnahreinsanir nota heldur margborgar sig að hafa utan um þá sérsaumaðan klæðapoka úr óbleiktu lérefti.

Við getum líka tekið dæmi af styttu en af henni má alls ekki þurrka með rakri tusku heldur er best að dusta af henni með mjúkum penslum. Í þessum efnum gildir soldið það sem átti við fyrir tíma ryksugunnar þegar það var farið með hlutina út í góðu veðri, bankað af teppum og dustað af munum til þess að losna við rykið. En ryk er nefnilega ekki bara ryk eins og kemur fram í umræðunni um mengunina í Reykjavík þessa dagana. Í slíku ryki eru alls konar sót- og brennisteinsagnir sem geta haft talsvert áhrif á þá gripi sem þær falla á. Slíkt getur verið afgerandi ef búið er við umferðargötu. Allt hefur þetta áhrif.

En hvert getur fólk snúið sér sem að velta þessu fyrir sér? „Það getur haft samband við deildina sem er starfandi hér á Árbæjarsafni og fengið þar ráð um forvörslu. Hér eru sérfræðingar í heimilismunum, tækniminjum og hvaðeina sem geta veitt ráðgjöf. En það sem er í raun mikilvægast fyrir okkur öll að hafa í huga er að það er ekki nóg að skapa menninguna, heldur þarf líka að varðveita hana og halda henni við. Það er engin framtíð án fortíðar.“