Lífræn ræktun á grænmeti og ávöxtum felur meðal annars í sér minna magn skordýraeiturs sem gjarnan er notað í hefðbundinni framleiðslu. Þá eru aðrir eiginleikar á borð við tegund og þykkt hýðis sem gera það að verkum að talið er betra að gæta þess að vissar afurðir séu lífrænar.

Það versta og það besta

Á hverju ári birta umhverfissamtökin EWG, eða Environmental Working Group, lista yfir það grænmeti og ávexti sem mælst hafa með mest magn skordýraeiturs en listinn gengur undir heitinu „The Dirty Dozen“. Vörurnar eru keyptar í matvöruverslunum og þvegnar áður en þær eru mældar. Þá birta samtökin einnig lista yfir þær vörur sem taldar eru hvað „hreinastar“ þrátt fyrir að vera ekki endilega lífrænt vottaðar.

Laukurinn marglaga er í fyrsta sæti á lista yfir þær vörur sem mælast með minnstu magni skordýraeiturs.

Efst á listanum yfir þær vörur sem mælast með mestu magni skordýraeiturs í ár eru, líkt og áður, jarðarber. Í rannsókn EWG kom fram að mælst hefðu ein eða fleiri tegundir skordýraeiturs í yfir 90% jarðarberja. Næst á listanum var spínat en þar mældist mesta magn eiturefna miðað við þyngd. Þá fannst umtalsvert magn permetríns í mörgum sýnum en það er þekkt taugaeitur.

Spínat er í öðru sæti á listanum yfir afurðir sem mælast með mest magn skordýraeiturs.

Þriðja sætið vermir grænkál og á eftir fylgja nektarínur, epli, vínber, ferskjur, kirsuber, perur, tómatar, sellerí og að lokum kartöflur.

Í fyrstu þremur sætum á listanum yfir þær vörur sem mældust með minnst magn skordýraeiturs eru laukur, lárperur og maískorn en í þeim mældist lítið magn skordýraeiturs. Næst kemur ananas, sperglar, grænar ertur, kíví, kál, eggaldin, papaya, vatnsmelóna, spergilkál, blómkál, kantalópur og að lokum sveppir.


Samtökin ráðleggja upplýstum neytendum að fylgjast með þessum listum og hafa til hliðsjónar við matarinnkaup.