Silja Úlfarsdóttir, upplýsinga- og kynningarfulltrúi Íþróttabandalags Reykjavíkur, segir að í rauninni sé búið að undirbúa hlaupið í þrjú ár en Covid setti strik í reikninginn undanfarin ár. „Tíminn hefur verið vel nýttur,“ segir hún. Það er Íþróttabandalag Reykjavíkur sem heldur hlaupið í samstarfi við Íslandsbanka. Maraþonið er fyrir löngu orðið mikilvægur viðburður í borginni í ágúst, sama dag og Menningarnótt fer fram. Nú er það haldið í 37. sinn en hefði verið 39. ef ekki hefði verið heimsfaraldur. Fyrsta Reykjavíkurmaraþonið fór fram árið 1984 og þá voru 214 hlauparar skráðir til þátttöku. Silja segir að stöðug fjölgun hafi verið síðan og árið 2019 var slegið met í þátttöku.

Nýtt rásmark

Hlaupurum í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka gefst kostur á að hlaupa til styrktar góðu málefni. Áheitasöfnunin fer fram á hlaupastyrkur.is og er hægt að velja á milli hátt í 300 góðgerðarfélaga.

„Ég hef verið viðloðandi Reykjavíkurmaraþonið í ansi mörg ár á mismunandi sviðum sem samstarfsaðili, þjálfari í herferðinni, sem góðgerðarfélag og núna sem starfsmaður ÍBR, ég hef því kynnst hlaupinu frá mörgum hliðum.

Skemmtiskokkið er fyrir alla og boðið verður upp á fjölbreytt skemmtiatriði á leiðinni. MYND/EVA BJÖRK ÆGISDÓTTIR

Silja segir að það verði smávægilegar breytingar á hlaupinu í ár. „Við hjá ÍBR notuðum tímann vel í Covid til að betrumbæta. Hlaupið hefst núna á Sóleyjargötu, við hliðina á Hljómskálagarðinum, þannig getum við dreift álaginu í miðbænum. Endamarkið er á sama stað og verið hefur í Lækjargötu,“ bendir hún á.

Allir hlaupa saman

„Aðalbreytingin verður í skemmtiskokkinu,“ bætir hún við. „Það var alltaf 3 kílómetrar og síðan var annað hlaup fyrir yngstu börnin. Okkur fannst fjölskylduvænna að sameina þessi hlaup þannig að allir gætu verið saman. Hægt er að stytta sér leið í skemmtiskokkinu fyrir þau yngstu. Í skemmtiskokkinu verður boðið upp á skemmtiatriði á leiðinni, jafnt búbblufroðu sem búningaklæddar persónur þannig að það verða óvænt atriði á leiðinni,“ segir Silja og vill hvetja fjölskyldufólk til að koma saman og taka þátt. „Einhver góðgerðarfélög ætla að vera með klappstöðvar í skemmtiskokkinu, sem gerir það enn skemmtilegra. Það geta ekki allir hlaupið langar vegalengdir svo skemmtiskokkið er tilvalið fyrir þá sem treysta sér ekki í það en vilja vera með. Í leiðinni fær fólk hreyfingu og skemmtun,“ segir hún.

Það er svo skemmtilegt þegar allir hlaupa saman og skemmta sér um leið. MYND/EVA BJÖRK ÆGISDÓTTIR

Met í söfnun

Silja segir að þátttakan nú í júlí sé á pari við árin þar á undan en enn séu margir sem eiga eftir að skrá sig. „Yfirleitt gerast hlutirnir hjá okkur í ágúst. Þá kviknar oft áhuginn á að hlaupa, fólk vill láta gott af sér leiða og styrkja gott málefni. Við hvetjum fólk til að hreyfa sig og safna áheitum. Söfnunin er stór partur af Reykjavíkurmaraþoninu og hún er mun meiri núna en síðustu ár. Þörfin er mikil og hjá sumum samtökum er þetta helsta fjáröflunin. Góðgerðarfélögin fundu mikið fyrir því að maraþonið lá niðri í tvö sumur,“ segir Silja, en þess má geta að heildarupphæð áheita sem safnast hafa í tengslum við Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka frá því að áheitasöfnunin hófst árið 2006 er nú komin í tæplega 1.113 milljónir. Sá hlaupari sem nú hefur safnað mest í ár er kominn með tæplega 900 þúsund krónur. „Þrír karlmenn eru efstir og þeir eru allir að hlaupa fyrir málefni sem skiptir þá miklu máli. Þeir sem hafa safnað mest síðustu ár hafa safnað allt frá 1,5 milljónum upp í 4 milljónir.“

Slegið var þátttökumet í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 2019. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Allir eru velkomnir

Boðið er upp á fjórar vegalengdir í Reykjavíkurmaraþoni, það er maraþon, hálfmaraþon, 10 kílómetra og skemmtiskokkið. „Oft hafa karlar verið fleiri í maraþoni en svo er ekki núna. Konur eru helmingur hlaupara. Síðan er mikil fjölgun í skráningu hjá kynsegin hlaupurum sem við erum afar ánægð með. ÍBR er nýbúið að fara í gegnum regnbogavottun hjá Reykjavíkurborg. Öllum er velkomið að vera með í Reykjavíkurmaraþoni. Erlendir keppendur eru aðeins færri en áður en við vitum að þeim á eftir að fjölga. Við sjáum það í öðrum viðburðum sem við höfum haldið,“ segir Silja. „Við erum mjög bjartsýn, spennt og hlaupaþyrst að halda aftur Reykjavíkurmaraþonið.“

Fallegur viðburður

Þegar Silja er spurð hvort íslenskum hlaupurum hafi ekki fjölgað mikið á undanförnum árum, svarar hún: „Jú, mín tilfinning er sú, enda hefur minni hlaupamótum fjölgað gríðarlega hér á landi. Það er alltaf mikil endurnýjun í þessari grein og þeir sem hafa hlaupið lengi heltast ekki hratt úr lestinni. Hópurinn er því alltaf að stækka sem er gleðilegt. Sumir sem taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu eru ekki hlauparar en fara í 10 kílómetra hlaup fyrir góðgerðarfélag sem stendur þeim nærri. Það gerir maraþonið að svo fallegum viðburði. Oft hefur líka maraþonið orðið kveikjan að frekari hlaupaáhuga. Við vonum því innilega að fólk velji sér góðgerðarfélag og taki þátt til að láta gott af sér leiða eða vilja bæta samfélagið með þessum hætti.“

Allir þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka fá verðlaunapening þegar þeir koma í mark. Fyrstu þrír karlar og konur í 10 kílómetra hlaupi, hálfmaraþoni og maraþoni fá einnig verðlaunagripi fyrir sinn árangur ásamt fleiri verðlaunum. Veitt eru peningaverðlaun til fyrstu þriggja karla og kvenna í 10 kílómetra hlaupi, hálfmaraþoni og maraþoni. Auk þess eru veglegar gjafir fyrir efstu sæti.

Vegna umhverfissjónarmiða verða bolir ekki innifaldir í þátttökugjaldinu að þessu sinni. Á skráningarhátíð hlaupsins verða bolir til sölu í takmörkuðu magni fyrir þau sem vilja.

Allar upplýsingar um hlaupið má finna á rmi.is