Klukkan níu á mánudagskvöld sátu fjölmargir Íslendingar, og enn fleiri úti í heimi, stjarfir við tölvurnar og biðu eftir því að fjölspilunarhlutverkaleikurinn World of Warcraft (WoW) færi í loftið. Eða réttara sagt færi í loftið aftur.

WoW kom nefnilega út árið 2004, eða 2005 í Evrópu, og sló rækilega í gegn. Á annan tug milljóna borgaði áskrift að leiknum þegar mest var og í gegnum tíðina hafa komið út sjö aukapakkar sem hafa breytt söguheiminum, Azeroth, allverulega.

Skýr krafa

Breytingarnar hafa hins vegar ekki verið allra. Mikill fjöldi hefur spilað ólöglegar sjóræningjaútgáfur af leiknum eins og hann var fyrir útkomu fyrsta aukapakkans í gegnum tíðina, svokallaða klassíska eða jafnvel vanilluútgáfu leiksins. Eftir að framleiðandinn Blizzard lét loka vinsælasta sjóræningjavefþjóninum, Nostalrius, hækkaði rómur fortíðarþyrstra spilara.

Kröfunni var loks svarað á BlizzCon, ráðstefnu sem Blizzard heldur árlega, árið 2017. „Áður en við komum að stóru fréttunum vil ég taka mér smástund til þess að tala um rjómaís. Hann er frábær. Einn uppáhaldseftirrétturinn minn. Ég er hrifnastur af súkkulaðiís og Oreo-ís. Það er raunar uppáhaldsísinn minn. En mér skilst að sum ykkar séu hrifnust... af vanillu,“ sagði J. Allen Brack, nú forseti Blizzard, er hann tilkynnti um að upprunalegi leikurinn yrði settur saman á ný við tryllt fagnaðarlæti viðstaddra.

Frábærar viðtökur

Það var einmitt sú útgáfa, World of Warcraft Classic, sem fór í loftið í vikunni. Viðtökurnar hafa væntanlega farið fram úr björtustu vonum Blizzard. 1,1 milljón horfði á aðra spila leikinn, eða bíða eftir að spila leikinn, á streymissíðunni Twitch. Það er ekki ýkja langt frá þeim 1,3 milljónum sem horfðu á heimsmeistarmótið í hinum mun nýrri Fortnite þegar mest var á dögunum. Ansi gott fyrir fimmtán ára tölvuleik.

Aðsóknin hefur raunar verið svo mikil að margir voru í stökustu vandræðum með að spila. Að minnsta kosti fyrstu dagana. Mörgþúsunda manna raðir hafa verið inn á vefþjónana og hefur blaðamanni ekki gengið sérstaklega vel að komast inn til Azeroth. Fólk hefur gripið til örþrifaráða á borð við að spila um miðja nótt, láta sambýlisfólk skrá sig inn í leikinn fyrir mann eða jafnvel bara að skrá sig aldrei út. Eftir helgina má hins vegar væntanlega búast við því að öldurnar lægi og allir komist að.

Skilaboð til lesenda

Lesendur eru beðnir um að hafa það í huga að ráðast ekki á uppvakninginn og seiðskrattann Demonology, rekist þeir á hann á vefþjóninum Firemaw.

Pálmi segir fjölskyldu og vinnu nú þurfa að vera í forgangi.
Mynd/Pálmi

Algjör Nostalgía

Pálmi Þorgeir Jóhannsson var þrettán ára þegar hann byrjaði að spila. Það var í apríl árið 2005 þegar leikurinn var nýkominn út í Evrópu. Hann segist hafa spilað leikinn allar götur síðan, þó mismikið enda þurfa vinna og fjölskylda nú að vera í forgangi.

„Lífið hefur töluvert breyst. Vinna er tekin við af skóla og ég keypti nýlega íbúð með unnustu minni,“ segir Pálmi sem ætlar þó að taka þátt í Classic-ævintýrinu þótt frítíminn sé ekki jafnmikill. „Þetta er náttúrulega algjör nostalgía að fara aftur um fimmtán ár í tímann,“ bætir Pálmi við en hann ætlar að spila mennskan bófa í þetta skiptið.

Hann vonast til þess að geta spilað með einhverjum þeirra gömlu vina sem hann lenti í ævintýrum með í gamladaga. „Ég eignaðist mikið af vinum í gegnum leikinn og fórum við þrír vinir til Skotlands í tvær vikur að hitta nokkra aðra sem við spiluðum með. Það var ótrúlega skemmtileg upplifun.“

Jóhann segir lífið mikið hafa breyst frá því WoW kom út.
Mynd/Jóhann

Lærði að spara

Jóhann Tryggvi byrjaði að spila World of Warcraft undir lok hins klassíska tímabils leiksins og hefur spilað að minnsta kosti eitthvað af öllum aukapökkum sem síðan hafa komið. „Núna vonast ég eftir að fá þessa skemmtilegu tilfinningu aftur þar sem ég get spilað með vinum,“ segir Jóhann, sem er hrifnastur af eldri útgáfum leiksins.

„Lífið hefur breyst mikið á þessum tíma. Ég hef ekki alltaf verið mikið fyrir að vera með fólki, þannig leikurinn var skemmtilegur af því ég gat talað við fólk í gegnum netið og ekki verið vandræðalegur,“ segir Jóhann og minnist sérstaklega á að leikurinn hafi hjálpað honum að læra á fjármál.

„Ég lærði hvernig átti að safna og spara peninga. Hvernig ætti að kaupa og selja hluti og fleira. Leikurinn er með góðu kerfi til að læra á peninga. Margir sem ég þekki byrjuðu á að læra að safna í gegnum WoW,“ bætir hann við.

Jóhann minnist sérstaklega skemmtilegrar sögu af því þegar frændi hans var að spila leikinn í fyrsta skipti. „Þegar hann komst á stig (e. level) 58 var leiknum breytt þannig að það varð léttara að komast frá stigi 20 á stig 58. Hann varð létt pirraður en hló bara að þessu,“ segir Jóhann. Þess má geta að umræddur frændi er undirritaður blaðamaður sem hefur ekki enn jafnað sig fyllilega á þessu mikla áfalli.

Viðar á BlizzCon 2013 með John Bain, eða TotalBiscuit, sem lést úr krabbameini í fyrra.
Mynd/Viðar

Besta útgáfan

Viðar Einarsson er gallharður og byrjaði að spila í þeim mánuði sem leikurinn kom út í Evrópu. Það hefur hann gert alla tíð síðan, þó með pásum. „Þegar ég byrjaði að spila var ég fjórtán ára unglingur með allt of mikinn frítíma. Núna er maður kominn í vinnu, fluttur út og kominn með unnustu og barn þannig það hefur margt og mikið breyst á þessum tíma,“ segir Viðar sem sér samt sem áður fram á að finna einhvern tíma fyrir WoW Classic.

„Maður hefur kynnst slatta af fólki í gegnum leikinn. Bæði Íslendingum og fólki frá öðrum löndum. Einnig hjálpaði hann mér að læra ensku þegar ég var unglingur,“ segir Viðar sem finnst Classic besta útgáfa leiksins. Hann nefnir einnig að WoW hafi átt stóran þátt í því að hann valdi sér að fara í nám í tölvunarfræði og leikjahönnun.

Viðar minnist þess þegar hann fór á BlizzCon-ráðstefnuna árið 2013 í Bandaríkjunum. „Það var ótrúlega skemmtileg lífsreynsla og gaman að hitta marga WoW-áhrifavalda af YouTube og spjalla aðeins við þá,“ segir Viðar en hann náði einnig að spyrja aðstandendur leiksins spurningar í spurðu og svöruðu. Segir það hafa verið nokkuð stressandi.

Mjög breytt manneskja

Guðmundur Jón Viggósson hefur spilað WoW frá fyrsta degi. „Lífið hefur breyst nokkuð mikið síðan ég byrjaði að spila. Ég gifti mig, hef eignast tvö börn, annað þeirra orðið þrettán ára, hef samt spilað WoW lengur en eldra barnið hefur verið til, skipt þrisvar um vinnu, keypt hús.“

Hann segir það vitað mál að hann muni spila leikinn öðruvísi núna en þegar leikurinn kom út. Það skýrist af því að hann hefur breyst sem manneskja. Núna sé markmiðið að fíflast með vinum en ekki klára allt sem fyrst og finna besta fjarsjóðinn.

Guðmundur grínast með að ef til vill hefði hann verið kominn með doktorsgráðu nú ef hann hefði frekar varið tíma sínum í að læra en spila. „En að öllu spaugu slepptu þá hefur þetta haft alveg ágætis áhrif. Ég á vini og kunningja út um allan heim út af þessum leik. Hann kenndi mér á sínum tíma á ákveðna þætti mannlegrar samvinun. Annað er ekki hægt þegar þú ert með fjörutíu manns, alls staðar að úr heiminum, að reyna að drepa skrímsli í tölvuleik.“

Skelkaður náttálfur hleypur undan uggvænlegri risaeðlu í Un'Goro.
Mynd/Blizzard

Orðabók fyrir þá sem þekkja ekki til

Alliance og Horde Stórveldin tvö í söguheiminum sem leikmenn geta valið um að berjast fyrir.

Ættkvísl (e. race) Hvert veldi samanstendur af fjórum ættkvíslum. Alliance geta verið mannfólk (e. humans), náttálfar (e. night elves), dvergar (e. dwarves) og stuttlungar (e. gnomes). Horde geta aftur á móti verið orkar (e. orcs), nautungar (e. tauren), tröll (e. trolls) og uppvagningar (e. undead).

Stétt (e. class) Þegar maður hefur valið kynþátt velur maður sér stétt líka, sem stýrir mestu um hlutverk þitt í leiknum. Þær eru níu talsins: Stríðsmaður (e. warrior), musterisriddari (e. paladin), töfralæknir (e. shaman), veiðimaður (e. hunter), bófi (e. rogue), drúídi (e. druid), prestur (e. priest), galdrakarl (e. mage) og seiðskratti (e. warlock).

Dýflissur (e. dungeons) Lokuð svæði með erfiðum endaköllum sem fimm spilarar takast saman á við.

Áhlaup (e. raids) Eins og dýflissur nema mun stærri. Hugsuð fyrir annað hvort tuttugu eða jafnvel fjörutíu spilara.

Verkefni (e. quests) Til þess að komast upp á hærra stig (e. level) þarf maður að öðlast reynslustig með því annað hvort að leysa ýmis verkefni eða drepa alls konar kvikindi.