Hin árvissa djasssumartónleikaröð veitingahússins Jómfrúarinnar við Lækjargötu hefst í dag, laugardaginn 19. júní. Þetta er tuttugasta og sjötta árið í röð sem Jómfrúin býður þeim sem heyra vilja upp á ókeypis sumarskemmtun á laugardagseftirmiðdögum. Eins og undanfarin ár er dagskrárgerð og kynning í höndum Sigurðar Flosasonar.

Á fyrstu tónleikum sumarsins leikur hljómsveitin Afro-Cuban kvintett Einars Scheving. Karabísk stemning mun svífa yfir vötnum en kvintettinn leikur lög Einars í bland við útsetningar hans af tökulögum úr ýmsum áttum.

Auk Einars Scheving, sem leikur á trommur, skipa hljómsveitina þeir Phil Doyle á saxófón, Ari Bragi Kárason á trompet, Eyþór Gunnarsson á píanó og slagverk og Róbert Þórhallsson á bassa. Tónleikarnir fara fram utandyra á Jómfrúartorginu. Þeir hefjast kl. 15 og standa til kl. 17. Aðgangur er ókeypis.