„Ég held að þetta verði einstök upplifun fyrir göngufólkið,“ segir fjallavinurinn og hjartalæknirinn Tómas Guðbjartsson sem stendur fyrir afmælisgöngu að gígnum fræga í Geldingadölum á morgun, en þá verður einmitt eitt ár liðið frá því eldar teygðu sig upp úr jörðinni á Reykjanesskaga og fóru allmikinn á svæðinu um margra mánaða skeið, íslenskum og erlendum ferðamönnum til ómældrar gleði og einstakrar upplifunar.

Gangan hefst klukkan 11.00 frá björgunarsveitarskúrnum á veginum rétt austan við Grindavík og verður farin í mestu makindum, að sögn Tómasar. „Þetta verða kannski einhverjir átta til tíu kílómetrar í hægviðri og það er, vel að merkja, snjór yfir öllu sem gerir upplifunina enn sterkari en oft áður, því andstæðurnar eru svo miklar á milli alls þessa hvíta yfirborðs og svo kolsvarts hraunsins sem enn nær að bræða snjóinn.“

Og hann segir sjónarspilið ekki einvörðungu bundið við þessar andstæður ólíkra lita. „Gígurinn sjálfur er augnayndi, enda óvenjulega mosagulur eftir brennisteins­útfellingar og einstaklega fallegur á að líta. Hann er berið ofan á þessari afmælistertu,“ segir Tómas og á von á fjölmenni á morgun, en bendir fólki á að vera vel búið „og ekki er verra að vera með heitt á brúsa.“

Tómas sér um leiðsögnina ásamt Salóme Hallfreðsdóttur fyrir hönd Ferðafélags Íslands, en Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, og Helga Kristín Torfadóttir, doktorsnemi í sama fagi, munu ræða gosið sjálft, framvindu þess og samanburð við önnur gos á eldfjallaeyjunni.

„Og svo verður forsetinn með í för, Guðni Th. Jóhannesson,“ segir Tómas „en hann hefur komið alloft með mér upp að gosinu og er alltaf jafn áhugasamur um jarðhræringarnar á þessu svæði í bakgarði höfuðborgarinnar.“