Ævisögu Harry Bretaprins, sem væntanleg er í verslanir í janúar, er beðið með mikilli eftirvæntingu. Bókin ber nafnið Spare, eða „Varaskeifan“, sem er vísun í orðatiltækið „heir and spare“ sem hefur verið notað um þá bræður, Harry og Vilhjálm.
Bókin er þegar farin að valda talsverðu fjaðrafoki og segir Richard Fitzwilliams, sérfræðingur í málefnum bresku konungsfjölskyldunnar, að bókin geti í versta falli haft skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir Harry og bresku konungsfjölskylduna.
Nafn bókarinnar hefur fyrir það fyrsta vakið ýmsar spurningar og segir Fitzwilliams að nafnið gefi til kynna að Harry meti það svo að hann hafi ekki verið metinn að verðleikum – eða látinn standa á hliðarlínunni þegar ákvarðanir um mikilvæg mál fjölskyldunnar hafa verið teknar.
Útgefandi bókarinnar, Penguin Random House, segir að bókn verði í senn „hrá og hreinskilin“ og telur Fitzwilliams að aðrir í konungsfjölskyldunni hafi miklar áhyggjur af því hvað Harry muni segja, ekki síst í ljósi þess að Karl Bretakonungur er nýtekinn við krúnunni eftir andlát móður sinnar, Elísabetar.
Fitzwilliams segist sjálfur vera þeirrar skoðunar, í samtali við Daily Mail, að Harry hefði átt að bíða í nokkur ár með það að gefa bókina út.
Mark Borkowski, rithöfundur og almannatengill, er sama sinnis og Fitzwilliams og telur hann að bókin muni skemma mjög fyrir konungsfjölskyldunni. Ef allt fer á versta veg sér Borkowski fyrir sér að Karl muni bregðast við bókinni með því að svipta Harry hertoganafnbótinni.