Ævi­sögu Harry Breta­prins, sem væntan­leg er í verslanir í janúar, er beðið með mikilli eftir­væntingu. Bókin ber nafnið Spare, eða „Vara­skeifan“, sem er vísun í orða­til­tækið „heir and spare“ sem hefur verið notað um þá bræður, Harry og Vil­hjálm.

Bókin er þegar farin að valda tals­verðu fjaðra­foki og segir Richard Fitzwilli­ams, sér­fræðingur í mál­efnum bresku konungs­fjöl­skyldunnar, að bókin geti í versta falli haft skelfi­legar af­leiðingar í för með sér fyrir Harry og bresku konungs­fjöl­skylduna.

Nafn bókarinnar hefur fyrir það fyrsta vakið ýmsar spurningar og segir Fitzwilli­ams að nafnið gefi til kynna að Harry meti það svo að hann hafi ekki verið metinn að verð­leikum – eða látinn standa á hliðar­línunni þegar á­kvarðanir um mikil­væg mál fjöl­skyldunnar hafa verið teknar.

Út­gefandi bókarinnar, Penguin Random Hou­se, segir að bókn verði í senn „hrá og hrein­skilin“ og telur Fitzwilli­ams að aðrir í konungs­fjöl­skyldunni hafi miklar á­hyggjur af því hvað Harry muni segja, ekki síst í ljósi þess að Karl Breta­konungur er ný­tekinn við krúnunni eftir and­lát móður sinnar, Elísa­betar.

Fitzwilli­ams segist sjálfur vera þeirrar skoðunar, í sam­tali við Daily Mail, að Harry hefði átt að bíða í nokkur ár með það að gefa bókina út.

Mark Bor­kowski, rit­höfundur og al­manna­tengill, er sama sinnis og Fitzwilli­ams og telur hann að bókin muni skemma mjög fyrir konungs­fjöl­skyldunni. Ef allt fer á versta veg sér Bor­kowski fyrir sér að Karl muni bregðast við bókinni með því að svipta Harry her­toga­nafn­bótinni.