„Það sem hefur haldið mér mest lifandi í kófinu er að setjast við skriftir og ég er búinn að skrifa einar þrjár bækur á þessu tímabili,“ segir Sveinn Einarsson, leikhúsfræðingur með meiru, sem gaf nýlega út bókina Á sviðsbrúninni. „Ég skrifa mikið á morgnana og grínast stundum með að ég sé temmilega vel gefinn þá, en versni eftir því sem líður á daginn.“

Í bókinni rekur Sveinn hugleiðingar sínar um leikhúspólitík og störf sín í sviðslistageiranum undanfarna áratugi, en hann segir að bókin hafi verið búin að brjótast í sér í þó nokkurn tíma.

Fjögur ár í efra

„Ég skrifaði einu sinni bók sem hét Níu í neðra frá árunum mínum í Iðnó, þar sem ég var fyrsti leikhússtjórinn, og síðar skrifaði ég Ellefu í efra um tímabilið mitt sem þjóðleikhússtjóri,“ segir Sveinn. „Ég vann í fjögur ár sem dagskrárstjóri á RÚV og þá voru vinir mínir þar að ganga á eftir mér hvort ég ætlaði nú ekki að skrifa um þá líka og myndi sú bók þá heita Fjögur ár í efsta, og vísa til Efstaleitisins.“

Sá titill fór ekki í vaskinn en er einmitt heiti fjórða kafla bókar Sveins sem rekur í þeim fyrsta hve hann sakni þess að blöðin í dag skuli ekki vera með ákveðnari gagnrýni á sjónvarpsefni.

„Þetta mótar okkur sem þjóð gríðarlega mikið og heldur áfram að gera það þótt fólk sé að horfa á það í einhvers konar appi,“ segir hann. „Þetta er sá miðill sem nær til flestra enn þá.“

Í öðrum kaflanum fjallar Sveinn um hvaða forsendur séu fyrir því að eitt verk sé sýnt en ekki annað. „Það er alltaf einhver hvati sem verður til þess að maður velur,“ segir hann. „Það er eitthvað sem ýtir við manni sem maður telur að eigi erindi við nútímann. Nema þá að það sé einfaldlega skemmtilegt, því við þurfum líka á upplyftingu að halda.“

Í þriðja kafla fer Sveinn yfir muninn á því að setja upp leikrit og óperur. „Ég hef sett upp um sjötíu leikrit, en líka á annan tug ópera, bæði hér og í útlöndum,“ segir Sveinn sem er mikill óperuunnandi.

Í fjórða og síðasta kafla bókarinnar talar Sveinn um ýmsar hugsjónir sínar sem hafa ekki orðið að veruleika. „Mig dreymdi til dæmis um að Leikminjasafnið yrði sjálfstæð stofnun en ég vona að það fari vel um munina í Þjóðminjasafninu og Þjóðarbókhlöðunni,“ segir Sveinn sem gaf eina áttatíu kassa í safnið.

„Ég vil líka fá leikhúsfræðadeild í háskólana hér á landi, eins og þekkist á öllum Norðurlöndunum. Það myndi ýta undir að meira yrði skrifað um leikrit, því bókmenntafólkið snýr sér auðvitað mest að bókunum.“