Óttar Guð­munds­son, geð­læknir er nýjasti gesturinn í Pod­casti Sölva Tryggva­sonar. Óttar segist sjá það skýrt að Co­vid-far­aldurinn hafi haft slæm á­hrif á geð­heilsu fólks:

„Þeir sem að eru við­kvæmir fyrir verða enn verri í Co­vid-far­aldrinum. Þeir sem eru kvíðnir fyrir verða enn kvíðnari, þeir sem eru með á­ráttu- og þrá­hyggju­hegðun verða verri af því og þeir sem sjá allt í ham­förum verða enn meira ham­faramiðaðir. Það hefur komið upp á að fólk fari í Co­vid-geð­rof og fengið rang­hug­myndir varðandi Co­vid. Þetta hefur klár­lega haft á­hrif á geð­heilsu fólks al­mennt,” segir Óttar, sem segir manns­heilann virka þannig að margir séu farnir að eiga erfitt með að í­mynda sér heiminn eins og hann var fyrir Co­vid:

„Fólk núna á upp til hópa erfitt með að í­mynda sér heiminn eins og hann var. Hann verður lík­lega aldrei þannig. Þessir hel­vítis ,,Zoom-fundir” munu verða á­fram. Ég flutti fyrir­lestur um Snorra Sturlu­son á lækna­dögum í sal sem vana­lega er fullur af fólki en var gal­tómur. Ég var bara að tala við míkró­fón og mér fannst ég bara vera hálf geð­veikur. Engin stemmning, engin við­brögð, engin hlátra­sköll. Ég man að ég hugsaði að ef þetta væri komið til að vera væri ekki gaman að halda fyrir­lestra framan. Því miður held ég að þetta ,,Zoom” um­hverfi sé komið til að vera. Það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir það að hitta fólk.”

Hætti að drekka

Óttar breytti öllu í lífi sínu árið 1985, þegar hann hætti að drekka, eftir að hafa verið kominn í ó­göngur:

„Ég kem heim frá Sví­þjóð árið 1984 og hætti að drekka sjálfur 1985. Ég var kominn í ó­göngur með mína drykkju og alls konar vesen sem fylgdi henni. Það var ekki auð­velt á þeim tíma að vera læknir og viður­kenna að maður ætti við á­fengis­vanda­mál að stríða. En ég fór í með­ferð og breytti öllu mínu lífi í kjöl­farið á því. Fram að því hafði ég aldrei getað fest mig í neinu og var rót­laus og drykkjan hefur örugg­lega haft mikið með það að gera. En svo byrjaði ég að drekka aftur eftir að hafa verið edrú í 12 ár. Þá hafði ég misst fótana og það var á­fall að horfast í augu við það. Það tók nokkur ár að komast á beinu brautina og núna hef ég verið laus við á­fengi í 15 ár.”

Eftir að hafa unnið í sínum á­fengis­vanda starfaði Óttar sjálfur um ára­bil við á­fengis­með­ferðir og hefur kynnt sér mjög vel á­fengis­menningu Ís­lendinga í gegnum tíðina:

„Það sem hefur alltaf ein­kennt á­fengis­menningu Ís­lendinga var að drekka mjög mikið þegar menn drukku. Þetta byrjaði strax og á­fengi var flutt til landsins og fólk var að kaupa þetta þegar kaup­skipin komu. Þannig að það var til mikið á­fengi í stuttan tíma og þá var mikið drukkið. Það er enda­laust af sögum af bændum sem drukku mikið og urðu úti og annað slíkt. Þannig að á­fengis­menningin hér var alltaf þannig að fólk varð mjög ölvað þegar á­fengi var í boði.

Sýslu­menn, prestar og bændur urðu oft mjög fullir og fóru að slást og gerðu alls kyns skandala. Svo var reynt að minnka neysluna með því að hafa fáar búðir með fáum tegundum og svo komu bann­árin og svo bjór­leysið. Þannig að það var alltaf verið að minnka heildar­neysluna og við vorum alveg fram undir 1990 með mjög lága heildar­neyslu á á­fengi miðað við aðrar Evrópu­þjóðir. Þess vegna hafa heilsu­fars­vanda­mál í gegnum tíðina verið öðru­vísi hér en til dæmis í Dan­mörku. Þar var alltaf meira um lifrar­skemmdir, en hér hærri slysa­tíðni og annað sem tengdist þessum miklu fylleríum.”

Fólk finni tilgang

Eitt af því sem Óttar leggur mikla á­herslu á í allri sinni nálgun á geð­læknis­fræði er að fólk finni til­gang:

„Það verður að vera gaman að lífinu og það er orðið mikið vanda­mál hvað fólki leiðist rosa­lega mikið og vantar á­skoranir. Það eru komin mikil vanda­mál með hangs og leiðindi af því að fólk veit ekki hvað það á að gera við sig í frí­tímanum. Línan á milli þess að vera al­var­lega þung­lyndur og að leiðast allt í lífinu verður að vera skýr.

Oft gerum við ekki nægi­lega mikinn greinar­mun þarna á milli. Til dæmis urðu hlaupin að mínum til­gangi eftir að ég hætti að drekka og það bjargaði mér örugg­lega að finna mig í þeim og eins að sökkva mér í að lesa og skrifa bækur. Þegar ég byrjaði að drekka aftur missti ég út bæði hlaupin og skrifin og ég tengi þetta beint saman. Það er mjög mikil­vægt að fólk finni eitt­hvað sem gefur því til­gang.”

Mikilvægt að mæta kvíðanum

Óttar segir mjög mikil­vægt að fólk mæti kvíða þegar það finnur fyrir honum og láti hann ekki stjórna lífi sínu:

„Allir eru kvíðnir og kvíði sem er ekki ó­stjórn­legur er í raun drif­kraftur og orka. Ég til dæmis vaknaði þrisvar í nótt með brjóst­sviða og það var bara kvíði við að koma hingað og tala við þig. Ég get farið að hugsa um verstu myndir og þá fór ég að hugsa að þú myndir draga mig út í um­ræðu þannig að ég myndi segja eitt­hvað sem hneykslar alla þjóðina og ég myndi fá alla fjöl­miðla upp á móti mér.

Þetta er kvíði, en nú er ég kominn hingað og klára af daginn minn þó að ég hafi ekki sofið vel, þannig að ég læt ekki kvíðann stjórna mér. Þar skilur á milli feigs og ó­feigs. Ég var mjög kvíðinn í nótt, en svo vaknaði ég og kom hingað og það er munurinn. Ef ég hefði hringt í þig og frestað við­talinu og svo myndi ég gera það með fleiri hluti þá er kvíðinn að byrja að ná stjórninni,” segir Óttar, sem segist nota bænir og trú þegar kvíðinn reynir að ná stjórninni hjá honum:

„Ég er mjög trúaður. Það kom með AA-sam­tökunum og bæninni þar. Pabbi var mikill trú­leysingi og ég var það líka. Ég fjar­lægðist trúnna mjög mikið. En þegar ég lærði að taka bænina inn í lífið varð ég mjög trúaður og er það. Það er mikill hluti af mínu lífi. Ég fer mjög oft að leiði for­eldra minna og bið þar. Ég þakka fyrir allt það sem ég hef, þakka fyrir lífið og allt það sem ég hef fengið.”