„Það kann vel að vera að sumum þyki erfitt að halda sig algerlega frá áfengi í heilan mánuð, en það er vísbending um að þá sé áfengið farið að stjórna lífi viðkomandi og ráði of miklu. Það ætti samt ekki að koma í veg fyrir að reyna að ná stjórninni,“ segir Árni Einarsson, framkvæmdastjóri Fræðslu og forvarna, félags áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu.

Í því samhengi segir Árni tilvalið að byrja þurran janúar á styttri skrefum.

„Til dæmis að taka fyrst eina viku þurra í janúar, eða tvær, og halda svo áfram fram á árið þar til markmiðinu um heilan áfengislausan mánuð er náð. Þannig verður þetta yfirstíganlegra, ekki síst fyrir þá sem eiga erfitt með að sleppa áfenginu alveg.“

Auðvelt að festast í viðjum vanans

Þurr janúar er stuðningur við þá sem vilja taka áfengisneyslu sína til skoðunar og/eða ná betri stjórn á drykkju sinni.

„Af og til getur verið ráðlegt fyrir alla að skoða neysluvenjur sínar og viðhorf til áfengis. Margir eiga erfitt með að hafa þá stjórn á áfengisneyslu sinni sem þeir vilja. Þrátt fyrir góðan ásetning verða drykkirnir aðeins fleiri en æskilegt er og einhverjir kunna að sjá eftir ýmsu sem þeir segja og gera ölvaðir. Það á svo við um alla sem nota áfengi yfir höfuð að hafa í huga að áfengi er engin venjuleg vara, sé litið til áhrifa þess á heilsu og samfélag,“ greinir Árni frá.

Hann segir auðvelt að festast í viðjum vana og hugsunarleysis, hægt og rólega, og án þess að taka eftir því.

„Svolítið eins og froskur sem er settur í fötu með köldu vatni. Þar liggur hann kyrr og þótt heitu vatni sé bætt út í svo að vatnið hitni smám saman, þá hreyfir hann sig ekki og deyr að lokum án þess að aðhafast neitt. Froskurinn hefur þá einfaldlega ekki gert sér grein fyrir breytingunni. Sé hann aftur á móti settur ofan í sjóðandi vatn stekkur hann snarlega upp úr fötunni og bjargar lífi sínu. Hann skilur samstundis þörfina á að bregðast við,“ segir Árni og heldur áfram:

„Þurr janúar er einmitt leið og tækifæri til að velta fyrir sér ýmsum hliðum áfengisneyslu og auðvelda fólki stjórn og ábyrgð í neyslu sinni, hvort sem það felst í að draga úr henni, breyta neysluvenjum, hætta neyslu tímabundið, láta alfarið af neyslu áfengis eða leita sér ráðgjafar vegna áfengisneyslu.“

Árni segir að hver vika, hvað þá mánuður, telji þegar fólk vill breyta um lífsstíl. Eftir tímabundið bindindi takist mörgum að núllstilla áfengisneyslu sína og ná á henni betri tökum. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Allar breytingar byrja á einu skrefi

En skiptir einhverju máli að taka sér bara einn mánuð í frí frá áfengi?

„Svarið við því er já, svo langt sem það nær. Það er gott fyrir heilsuna að hætta áfengisneyslu eða draga úr henni, jafnvel þótt það sé aðeins tímabundið. Svo er gott að hafa í huga að allar breytingar hefjast á litlu skrefi. Hver vika, hvað þá mánuður, telur þegar fólk vill breyta um lífsstíl,“ svarar Árni.

Áfengi sé heilsuspillandi og því telji hver einasti dagur þegar áfengisneyslu er sleppt.

„Þeir sem gefa líkama sínum samfellt frí frá áfengi, jafnvel einungis í einn mánuð, lýsa ýmsum jákvæðum áhrifum af því. Meðal þess er að blóðsykur og blóðþrýstingur lækkar, svefninn batnar, fólk léttist og verður orkumeira. Svo kostar nú sopinn sitt,“ segir Árni.

Eftir tímabundið bindindi hafi einnig margir þá reynslu að hafa tekist að núllstilla áfengisneyslu sína, ná betri tökum á henni til lengri tíma og endurmeta viðhorf sitt til áfengis.

„Þeir eiga til dæmis auðveldara með að afþakka áfengi eða hætta neyslu þegar þeim hefur þótt nóg komið, eða sleppa því alveg að drekka við ákveðnar aðstæður. Í rannsókn sem gerð var við háskólann í Sussex kom í ljós að 70 prósent þeirra sem tóku þátt í þurrum janúar breyttu áfengisneyslu sinni til betri vegar með því að drekka minna og sjaldnar yfir árið í heild,“ upplýsir Einar og hvetur sem flesta til að nota tækifærið og taka þátt í þurrum janúar til að meta hvort áfengisneyslan gefi tilefni til að bregðast við.

„Ávinningurinn af því getur verið víðtækur og fjölbreyttur og um það er hægt að fræðast á vefsíðunni eiginheilsa.is. Við bendum líka á TryDry-appið sem er frítt og gott hjálpartæki til að fylgjast með hvernig gengur. Í gegnum það fást hvetjandi póstar og tilkynningar sem halda fólki við efnið og í appinu eru margs konar upplýsingar um áfengi sem hægt er að nýta sér til að halda janúar þurrum. Appið auðveldar leiðina að markmiðasetningu, ákvarðanatöku og breytingum.“

Góð ráð í þurrum janúar

Hér gefast nokkrar ábendingar sem reynst hafa vel í að taka sér frí frá áfengi.

  • Fyrsta skrefið er að setja sér ákveðið markmið og halda sig við það. Mundu að þú ert að þessu fyrir sjálfa(n) þig.
  • Það er hvetjandi að fylgjast með og hafa augun opin fyrir hugsanlegum breytingum sem verða við það að sleppa áfengisneyslu. Þegar frá líður finnur þú væntanlega jákvæða breytingu á svefni, orku og andlegri líðan, líkamsþyngd og ýmsu fleiru. Það hefur reynst mörgum hjálplegt að halda einhvers konar dagbók til þess að dýpka skilning sinn á því sem gerist við það að hætta að drekka áfengi.
  • Það er mikilvægt að vera með hugann við það sem þú ert að gera. Til dæmis með því að láta símann minna þig á hverjum morgni á að þú ætlar að halda þig frá áfengi. Það er líka hægt að láta hann minna sig á seinni partinn eða á þeim tímum sem er líklegt að þú notir áfengi. Það getur verið ótrúlega auðvelt að ,,gleyma“ sér og það grefur undan líkum á árangri.
  • Venjur eru sterkar. Það gæti verið ráðlegt að sleppa um tíma aðstæðum sem þú tengir sterkt við áfengisneyslu. Gera kannski eitthvað annað og nýtt í staðinn.
  • Það gæti verið hjálplegt að fá aðra með sér í að sleppa áfengisneyslu í ákveðinn tíma, vini eða fjölskyldumeðlimi. Það er alltaf gott að fá stuðning frá öðrum. Kannski er hugmynd að stofna hóp á samfélagsmiðlum til þess að hvetja sig áfram, deila eigin reynslu og heyra hvernig öðrum gengur.
  • Það er líklegt að fólk í kringum þig hafi skoðun á því að þú hafir ákveðið að halda þig frá áfengi. Sumum þykir það áreiðanlega góð hugmynd og hvetja þig, en öðrum kann að finnast erfitt að þú sért farinn að hegða þér öðruvísi. Þú munt hugsanlega upplifa athugasemdir og viðbrögð þeirra sem þrýsting eða jafnvel hvatningu til að drekka. Vertu undir það búinn.
  • Komdu þér upp áfengislausum valkostum í staðinn fyrir áfengið. Það þarf ekki að vera flókið. Það má bragðbæta vatn með sítrónu, límónu eða appelsínu og það er líka gott að setja gúrkusneiðar eða myntu út í vatn. Svo má benda á að hægt er að finna fjölmargar uppskriftir að óáfengum kokteilum á netinu, til dæmis á vefsíðunni oafengt.is.
  • Sumum hefur reynst erfitt að vita af áfengi innan seilingar. Það gæti verið ráðlegt að losa sig við allt áfengi á heimilinu til að falla ekki í freistni.

Njóttu þess að vera laus við áfengi, þótt ekki sé nema í einn mánuð á nýja árinu.