Undir lok síðasta árs opnuðu Fannar Hannesson og kærastan hans, Francesca Tenze, pastagerðina La Fresca í Vanløse hverfinu í Kaupmannahöfn. Þar framleiða þau og selja ferskt pasta sem fólk tekur með heim og eldar á stuttum tíma, eins og algengt er á Ítalíu.
Fannar og Francesca bjóða meðal annars upp á ravioli með mismunandi fyllingum, ólíkar tegundir af tagliatelle og þrjár gerðir af gnocchi. „Við framleiðum einnig heimalagaðar sósur eins og hinar klassísku bolognese og arrabiata sósur auk þess sem við flytjum mismunandi sósur frá Ítalíu. Viðtökurnar hafa svo sannarlega farið fram úr væntingum okkar og Íslendingar eru duglegir að styðja við sitt fólk, sem er frábært,“ segir Fannar.
Bakgrunnur Fannars og Francescu liggur alls ekki í veitingageiranum sem gerir sögu þeirra enn skemmtilegri. „Við erum bæði útskrifuð með Master í International Marketing & Management frá Copenhagen Business School(CBS),“ segir Fannar sem er 29 ára en hann flutti til Kaupmannahafnar fyrir tíu árum síðan ásamt foreldrum og systkinum. „Ég kláraði BSc í viðskiptafræði frá CBS og hélt svo áfram í meistaranámið og þar hitti ég Francescu á fyrsta skóladegi.“
Francesca er 26 ára og flutti til Kaupmannahafnar frá Mílanó á Ítalíu fyrir fimm árum til þess að hefja meistaranám sitt við CBS.

Byrjaði með einu námskeiði
Eftir útskrift þeirra árið 2020 hófu þau bæði störf hjá alþjóðlegum lyfjafyrirtækjum, Fannar hjá Novo Nordisk og Francesca hjá Coloplast. Hugmyndin að La Fresca kviknaði hins vegar í helgarferð sem parið fór í til Bologna á Ítalíu á seinustu önninni í meistaranámi þeirra. „Þar ákváðum við að skrá okkur á námskeið þar sem við lærðum að búa til ferskt pasta, bara svona upp á gamanið. Bologna er þekkt sem höfuðborg lasagna og þar eru pastagerðir líkar okkar út um allt sem búa til ótrúlega gott ferskt pasta á hverjum degi.“
Það var í kjölfari þessarar helgarferðar sem þau fóru að velta fyrir sér hvort grundvöllur væri fyrir slíkan stað í Kaupmannahöfn. „Á meðan við skrifuðum meistara ritgerðirnar okkar byrjuðum við því hægt og rólega að pæla meira í hugmyndinni og safna að okkur meiri upplýsingum. Að lokum vorum við komin með 40 blaðsíðna rekstraráætlun og fengum síðan fjármögnun upp á átta milljónir íslenskra króna frá sjóði hér í Danmörku til þess að gera La Fresca að veruleika. Hálfu ári seinna skrifuðum við undir leigusamning á Jernbane Allé 35 í Vanløse, sögðum upp störfum okkar og fórum á fullt með La Fresca.“

Mikil vinna en skemmtileg
Það eru mikil viðbrigði að stökkva úr fyrri störfum hjá alþjóðlegum fyrirtækjum í að reka eigin pastagerð en þrátt fyrir mikla vinnu hefur allt ferlið verið mjög skemmtilegt að sögn Fannars. „Það er í rauninni auðvelt að skrá fyrirtæki hér í Kaupmannahöfn og um leið er góður aðgangur að viðskiptahröðlum sem veita góða leiðsögn og innsýn inn í það sem er gott að hafa í huga þegar maður íhugar að fara í rekstur. Það er mjög hjálplegt þegar maður hefur ekki hugmynd um hvar á að byrja.“
Eins og er reka þau einu pastagerðina í borginni sem selur eingöngu ferskt pasta til að taka með heim þannig að engin bein samkeppni er enn til staðar. „Hins vegar er veitingabransinn í Kaupmannahöfn mjög virkur og samkeppnin getur verið mjög hörð innan hans.“

Þessa dagana gera þau því lítið annað en að sinna rekstrinum. „En þegar við höfum tíma finnst okkur gaman að uppgötva nýja matarstaði í borginni og eyða tíma með vinum og fjölskyldu. Það er almennt ljúft að lifa og starfa í Kaupmannahöfn. Hér eru auðveldar samgöngur, gott jafnvægi milli vinnu og daglegs lífs að mestu leyti og okkur hlakkar nú þegar til sumarsins sem er dásamlegt í Danmörku.“
Hægt er að fylgjast með á Facebook, Instagram og á lafresca.dk.