Vísindamenn við Harvard-háskólann í Bandaríkjunum hafa reynt að finna út hvernig 10 þúsund skrefin komu til. I-Min Lee, prófessor í faraldsfræði, telur að hér sé um beina markaðssetningu að ræða. Japanskt fyrirtæki, sem seldi skrefamæla á sjöunda áratugnum, auglýsti mælana fyrir tíu þúsund skrefin. Vísindamaðurinn gat ekki sannað að þar væri upphafið að þessari reglu svo hún ákvað að fara í rannsóknarleiðangur, að því er netsíðan The Atlantic greinir frá. Eftir því sem I-Min veit best hefur raunverulegur heilsufarslegur árangur 10 þúsund skrefanna aldrei verið staðfestur með rannsóknum. Heilsufar fólks er of flókið til að hægt sé að staðfesta eina slíka tölu. Hjá sumum getur svona mikið labb valdið skaða frekar en hitt.

Gangan skiptir máli

Sextán þúsund bandarískar konur, sem voru að meðaltali 72 ára, tóku þátt í rannsókninni sem var birt í JAMA Internal Medicine. Helstu niðurstöður voru að þær sem gengu minnst 4.400 skref á dag lifðu lengur en konur sem gengu minna. Ef þær gengu meira lifðu þær enn lengur, en mælt var allt upp í 7.500 skref.

Fleiri skref, þeim mun betra

Önnur bandarísk rannsókn sem gerð var á fólki yfir fertugt sýnir einnig að regluleg ganga eykur lífslíkur. Fylgst var með fimm þúsund manns, þeim var fylgt eftir frá 2003–2006 og síðan aftur 2015 en þá var skoðað hversu margir höfðu fallið frá á tímabilinu. Í þeirri rannsókn kom í ljós að þeir sem hreyfðu sig meira hvern dag lifðu lengur. Þeir sem gengu 8.000 skref yfir daginn voru mun betur á sig komnir en þeir sem gengu 4.000 skref eða minna. Ef fólk gekk enn meira, eða um 12.000 skref, voru lífshorfur enn betri. Ekki skipti máli hvort fólk gekk hratt eða rólega.

Öll hreyfing til bóta

Allar rannsóknir sem gerðar eru á heilsu fólks benda til þess að dagleg hreyfing hafi góð áhrif á heilsuna. Engar niðurstöður eru þó til um hversu mikla hreyfingu þarf til að það hafi áhrif. Öll hreyfing er til bóta. Mögulega er nægilegt að hreyfa sig þrjá daga í viku fyrir suma en aðra eru það fimm dagar. Hreyfing eykur lífsgæði fólks þegar það eldist.

I-Min Lee segir ljóst að öll hreyfing bæti heilbrigði en hvort það þurfi endilega að vera 10.000 skref sé kannski ekki alveg það sem þetta snýst um. Ef fólk getur gengið svo mikið fær það vissulega aukinn kraft en með minni og hóflegri hreyfingu er líka verulegur heilsufarslegur ávinningur.

Það eru alls kyns heilsuráð sem dynja á fólki sem sögð eru góð fyrir heilsuna en henta kannski ekki öllum. Meðal þeirra er að drekka átta glös af vatni á dag, fá átta tíma svefn, að morgunmatur sé mikilvægasta máltíð dagsins og að tvö þúsund hitaeiningar þurfi á dag fyrir fullfríska manneskju. Margar þessara staðhæfinga hafa verið hraktar af vísindamönnum. Góður svefn er þó alltaf lykilatriði fyrir bætta heilsu.

Enginn veit hvaðan hún kom

Tíu þúsund skrefa reglan, sem nú hefur ferðast um allan heiminn og hefur fundið sér stað á úlnliðum eða í vasa fólks, varð kannski til út frá markaðssetningu ákveðinnar vöru. Hugsanlega er alveg nægjanlegt að ganga 7.500 skref á dag. I-Min Lee segir að þótt ganga sé góð fyrir líkamann þá eru aðrir kostir líka góðir, til dæmis sund eða leikfimitímar.

Sömu markmið í hreyfingu gilda ekki fyrir alla. „Áframhaldandi rannsóknir og framfarir í tækni geta skapað áreiðanlegri rannsóknir í framtíðinni varðandi hreyfingu og lífsstíl,“ segir hún. Allir vísindamenn eru þó vissir um að öll hreyfing sé til góðs.