Undir nafninu Skar-E-Lei Headdresses framleiðir Gudrita forkunnarfagra tauklúta fyrir þá sem kjósa að ganga með höfuðklúta. „Nafnið kemur úr íslensku, litháísku og ítölsku. Skarelei í heild sinni merkir lítill klútur í litháísku. Skar kemur frá því að skera í íslensku og E lei þýðir og hún í ítölsku,“ segir Gudrita.

Fyrstu níu ár ævi sinnar bjó Gudrita í Litháen. Eftir það fluttist hún með fjölskyldu sinni til Íslands. „Ég hef alltaf verið mjög leitandi þegar kemur að sjálfsmynd og sjálfstjáningu. Í menntaskóla heillaðist ég af Miðausturlöndum og menningunni þar. Þá sérstaklega fannst mér hefðbundinn klæðnaður frá þessum löndum áhugaverður og mjög fallegur.“

Hún notar bæði kemísk efni en líka ýmsar jurtir til þess að ná fram náttúrulegum lit og fallegum mynstrum.

Áhugaverð viðbrögð

Eftir því sem Gudrita kynnti sér hefðbundinn klæðaburð betur tók hún eftir því hvað sniðin voru einföld og mínímalísk. Oft var um að ræða stóran ferkantaðan tauklút sem fólk vatt utan um sig og festi saman með nælu eða belti. „Svona fatnaður er mjög fjölbreytilegur og hægt að nýta á margan hátt. Það sama gildir um höfuðklúta hinna mismunandi menningarheima. Það eru til hijab úr íslam, lausar slæður, túrbanar, skuplur og margt fleira. Í skólanum ákvað ég að kanna það hvernig það er að ganga með höfuðklút á Íslandi. Ég byrjaði fyrst að ganga með hijab og viðbrögðin voru mjög áhugaverð. Ég fann strax að fólk horfði á mig, þó svo það vildi ekki að ég tæki eftir því. Á þessum tíma voru mjög fáar múslimakonur á Íslandi og ég leit ekki beint út fyrir að vera frá botni Miðjarðarhafs.

Gudrita fær afskurði frá blómabúðum til þess að nota í litunarferlið.

Gjörningurinn þróaðist þannig að ég fór að ganga með höfuðklút á hverjum degi og geri það enn í dag. Ég gekk með lausar slæður, gyðingahatt og núna er ég með Jerúsalem-túrban. Mér finnst orðið mjög óþægilegt að vera án höfuðfats.“

Saga höfuðklúta

Eftir því sem Gudrita kafaði dýpra í sögu höfuðklúta varð hún sannfærðari um að ástæðan fyrir þeim væri ekki bara trúarleg eða til þess að skýla höfðinu fyrir sólinni. „Höfuðklúta er að finna í ótal mismunandi menningarheimum úti um allan heim. Þetta virðist líka vera miklu eldra en nokkur trúarbrögð. Í vedískum fræðum, sem eru skráð um 4000 árum fyrir Krist og eru mun eldri í munnlegri hefð, er talað um að hárið sé viðkvæmt fyrir utanaðkomandi áhrifum. Þess vegna sé höfuðklúturinn mikilvægur sem vernd gegn áreitinu. Hárið er framlenging af líkama og skynfærum og því lengra sem hárið er, því meiri skynjun er í gegnum það og því meir geta aðrir nærst á orku þinni. Sama gildir um fléttur eða hnúta. Það er því ákveðin vernd sem hlýst af því að binda hárið.“

Það er hægt að ná fram ýmsum fallegum mynstrum með ólíkum litunaraðferðum. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Hannar sína eigin klúta

Gudrita fór að búa til höfuðklúta undir nafninu Skar-E-Lei vegna þess að hún átti erfitt með að finna réttu klútana hér á landi til þess að binda mismunandi höfuðklæðnað. „Ég fann hvergi réttu efnin, lengdina, þykktina eða litina og vildi bæta úr því. Því ákvað ég að framleiða og lita mína eigin klúta. Ég nota ýmsar aðferðir við að lita tauefni sem koma úr jurtaríkinu, eins og hör, hamp og bómull, og nota meðal annars ýmiss konar jurtaliti.

Á Íslandi er mikil þekking í litun ullargarns, en aðferðirnar við að lita jurtaefni og þráð úr dýrahári eða silki eru mjög ólíkar. Mig langar að ferðast um allt og læra enn meira um hefðbundnar litunaraðferðir.“ Þeim sem hafa áhuga á að nálgast klútana frá Skar-E-Lei er bent á að hafa samband við Gudritu á Instagram @skarelei eða í gegnum Facebook.

Jákvæðari tengingar

Viðhorf gangvart þeim sem ganga með höfuðklúta hafa breyst töluvert á þeim tíu árum sem Gudrita hefur notað þá, en þó ekki nóg að hennar mati. „Fyrst átti fólk mjög erfitt með að samþykkja að ég kysi það sjálf að ganga með höfuðklút. Fólki finnst ennþá skrítið að ég kjósi þetta þegar ég er ekki neydd til þess, því það er ekki hluti af trú minni og ég er til dæmis ekki að fela skalla eftir lyfjameðferð. En ég finn að fólk er orðið opnara með að spyrja mig út í klútana og líka tilbúnara að samþykkja mitt val.“

Með Skar-E-Lei Headdresses vill Gudrita gefa höfuðklútum jákvæðari tengingar svo að þeir sem kjósa að ganga með hvers konar höfuðfat, hvort sem það er túrban, hijab eða slæða til að fela blettaskalla eftir krabbameinsmeðferð, geti gert það með stolti og gleði.