Pálína sem er 27 ára háskólanemi og alin upp á Eystra Geldingaholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hefur í fjögur ár haldið úti instagram síðunni FarmlifeIceland þar sem hún birtir myndir af lífinu í sveitinni. Myndir af kindum og lömbum eru áberandi á síðunni hennar og fallegar myndirnar vöktu athygli starfsmanna Vogue World en fylgjendur síðunnar eru komnir yfir 36 þúsund.

Núorðið býr Pálína í Hlíðunum ásamt bróður sínum en bæði fluttu þau í bæinn til að stunda nám við Háskóla Íslands. „Ég er að skrifa mastersritgerð í hagnýtri sálfræði og hann er á fjórða ári í læknisfræði.“ Pálína sem alin er upp í sveitinni hjá foreldrum sínum, þeim Axel Árnasyni Njarðvík og Sigþrúði Jónsdóttur og segist alltaf fara heim þegar færi gefst. 

„Ég er heima allan sauðburðinn, yfir jólin og alltaf þegar ég kemst frá skólanum. Mér finnst nauðsynlegt að koma sem oftast heim, sveitin er enn heim þó ég hafi í raun ekki haft fasta búsetu þar síðan ég var í grunnskóla. Það er gaman að fara í fjárhúsið, hjálpa til og hitta kindurnar mínar. Mér þykir afskaplega vænt um þær eins og ég vona að allir sem skoði instagrammið sjái.“ Eystra Geldingaholt hefur verið í eigu móðurættar Pálínu í sex kynslóðir en þar eru móðursystkini Pálínu með blandaðan búskap, þar af um 300 kindur.  

Kindurnar komu henni á forsíðu Vogue.com

Aðspurð hvernig sveitastelpa í Gnúpverjahreppi endar í grein hjá Vogue svarar Pálína; „Ég býst við að einhver þeirra sem sér um Vogueworld hafi einfaldlega rambað á instagrammið mitt og fundist það áhugavert. Ég fékk tölvupóst, sem ég reyndar sá ekki þannig ég fékk annan tölvupóst þar sem ég var spurð hvort ég hafi séð þann fyrri. Þannig að ég missti næstum af þessu. Ég hélt fyrst að þetta væri eitthvað grín. Afhverju í ósköpunum ætti Vogue að hafa samband við mig, er það ekki tískutímarit? Ég veit ekki neitt um tísku!“ En mér fannst það nú frekar töff, að kindurnar mínar komi mér á forsíðu vogue.com. Mér hefði aldrei dottið það í hug.“ Pálína segist hafa fengið góð viðbrögð við umfjölluninni og fólki finnist þetta greinilega skemmtilegt. 

Vill sýna fólki hvernig landbúnaður á að vera

„Það er væntanlega slatti af fólki sem sér þetta og skoðar þar af leiðandi instagrammið mitt sem er gott. Ég vil sýna fólki hvernig íslenskur landbúnaður er. Hvernig landbúnaður á að vera að mínu mati. Að vel sé hugsað um blessuðu skepnurnar og að þær séu allar einstakar, hver með sinn persónuleika. Fólk er oft hissa að ég þekki kindurnar mínar í sundur, en hvernig ætti ég ekki að þekkja vinkonur mínar í sundur? 

Ef fólk vill á annað borð halda áfram að borða kjöt, þá verður það að hugsa um það hvaðan það kemur og hverskonar landbúnað þú ert að styrkja þegar þú kaupir matinn þinn. Ég vil samt taka það fram að kindurnar sem eru vinkonur mínar eru gæludýr, þær lifa þangað til þær deyja af eðlilegum orsökum, þá jarða ég þær og græt. Sumum finnst það svolítil hræsni að borða sumar kindur og elska aðrar. En það er samt ekkert öðruvísi en að elska hundinn sinn og borða svo lambakjöt.“

Hér má sjá greinina sem birtist á forsíðu Vogue.com í síðustu viku: https://www.vogue.com/voguewor...