Einn fremsti rappari landsins, Herra Hnetusmjör eða Árni Páll Árnason hefur gefið út ævisögu sína, Herra Hnetusmjör - hingað til.

Uppistandarinn og fjölmiðlamaðurinn Sóli Hólm skrifaði bókina.

Herra Hnetusmjör eða Árni segir að Covid hafi gefið sér tíma til að vinna í bókinni enda mun minna að gera í tónlistarbransanum þessa dagana. Þrátt fyrir það þá komi alltaf einhver verkefni upp á borðið hjá sér.

Hann var í viðtali í þættinum Magasín á Fm957 í dag.

„Ég hef alveg verið tekinn af lífi af mörgum fyrir að vera að gefa út ævisögu fyrir 25 ára. Ég er vissulega búinn að lifa í 24 ár en miðað við allt sem ég hef upplifað þá eru þetta meira eins og 200 ár," segir HH og hlær.

Hann segir bókina fara yfir allt í hans lífi, allt frá æskuárunum í Hveragerði yfir í dimmustu næturnar en hann var í mikilli óreglu og neyslu áður en hann sneri við blaðinu árið 2016. „Bókin skafar ekki af neinu og lesandinn fær að heyra allt. Ég held miklu minna aftur af mér í bókinni en ég hef gert í tónlistinni."

Hann hefur nú verið edrú í tæp fjögur ár, er í sambandi með Söra Linneth L. Castañeda og saman eiga þau sjö mánaða gamlan son.

Salan fer vel af stað

Ævisagan er gefin út af Bjartri Veröld og kom í forsölu í morgun á penninn.is. Hann segir að samkvæmt sínum mönnum hjá útgáfufyrirtækinu fari salan vel af stað.

„Ég kann ekki á bókatölur, kann bara á tölur í tónlistinni en mér skilst að þetta hafi farið vel af stað í morgun og ég þakka kærlega fyrir það," segir Herra Hnetusmjör að lokum.

Bókakápan á ævisögu rapparans.
Fréttablaðið/Skjáskot