„Maður dundar sér í ýmsu,“ segir glæpasagnahöfundurinn Óskar Guðmundsson um myndir sem hann hefur málað af myndasöguhetjunni sígildu, Tinna, og félögum hans á kunnuglegum stöðum íslenskrar náttúru og borgarlífs.

„Ég náttúrlega las þessar bækur eins og margir aðrir bara þangað til kjölurinn gaf sig,“ segir Óskar, sem var á fermingaraldri þegar hann fékk fyrst hugmyndina að því að mála Tinna við íslenskar aðstæður.

„Ég var alltaf að vonast til að Hergé myndi koma með eina bók sem gerðist bara hreinlega á Íslandi og ákvað að ef hann gerði það ekki þá ætlaði ég einhvern tímann að gera þetta bara sjálfur. Og þetta gerðist nú aldrei nema svona að litlu leyti þegar þeir Tinni og Kolbeinn stoppa stutt við inni á Akureyri í Dularfullu stjörnunni.

Það var mjög skemmtilegt. Kolbeinn fær sér í tána og svona,“ segir Óskar og rifjar upp nokkra sögulega ramma þegar félagarnir koma við í höfuðstað Norðurlands til þess að fylla skipið Áróru á leið sinni á Norðurheimskautið.

Hlé á prestsdrápum

„Þannig að þessi hugmynd er búin að blunda lengi með mér og alltaf einhvern veginn að þróast.

Það er síðan í rauninni bara í fyrstu bylgju faraldursins sem ég dett svolítið út úr skrifunum,“ segir Óskar, sem var orðinn svo vanur að skrifa á kaffihúsum að hann missti taktinn þegar þeim var lokað og frestaði því krimmanum Boðorðin, sem fjallar um heldur hryllileg raðmorð á prestum með barnagirnd, til næsta árs og byrjaði að mála Tinna.

Tinni var einn í heiminum

„Þetta var reyndar frábær tími til að byrja á þessu vegna þess að ég var einn í heiminum eins og Palli þegar ég fór niður í miðbæ að taka ljósmyndir af stöðum sem mér datt í hug að gaman væri að setja Tinna inn í.“

Óskar bendir til dæmis á að hann hafi getað staðið úti á miðri Sæbrautinni í kortér á föstudagseftirmiðdegi þegar hann var að mynda Hörpu og þurfti ekki að hafa áhyggjur af því að fólk skyggði á viðfangsefnið.

Tinni og Kolbeinn áttu því sviðið þegar Óskar fann þeim stað í borgarlandslaginu og nú eiga þeir veggplássið í Epal Gallerí á Laugavegi þar sem Óskar opnar sýninguna Tinni á Íslandi klukkan 17 í dag en hún stendur út júlí.

Migið utan í Laxness

„Ég vissi alltaf að þetta yrði mikil vinna og það er í raun bara ekki fyrr en núna að ég var tilbúinn til að setja upp sýningu og það kom mér skemmtilega á óvart hversu vel þetta fer bara á vegg inni í stofu.“

Þegar Óskar er spurður hvort hann hafi langað sérstaklega að finna Tinna stað á einhverjum einum stað umfram annan stendur ekki á svari.

„Ég er auðvitað mjög hrifinn af öllum myndunum en það er ein sem mér þykir gríðarlega vænt um en hún er af Tinna að spjalla við Halldór Laxness fyrir utan Gljúfrastein. Svo stendur Tobbi hinum megin við Jagúarinn og er að míga utan í dekkið.“