Skemmti- og ævintýraskip rússneska milljarðamæringsins Vladimírs Strzhalkovskí er nú í Reykjavíkurhöfn. Lúxussnekkjan sem metin er á tíu milljarða króna er til sölu og heitir Ragnar.

Ragnar var smíðaður árið 2012 í Hollandi og er snekkjan nefnd í höfuðið á víkingnum Ragnari loðbrók sem fékk skip frá konungnum föður sínum og lagðist í víking. Nafngiftin er til marks um það að hér er um ævintýraskip að ræða.

Tólf gestir geta verið um borð í Ragnari hverju sinni og skipinu fylgir sautján manna áhöfn. Rekstrarkostnaður snekkjunnar á ári hverju er sagður vera á bilinu 629 milljónir til milljarður króna.

Í ævintýrasnekkjunni er að sjálfsögðu þyrlupallur og sundlaug. Þá fylgir sérútbúinn torfærubíll skipinu og líkamsræktarsalur er um borð í hinu 68 metra langa fleyi.

„Ragnar var smíðaður til að taka gesti út úr þægindarammanum og inn í ókortlagðan heim snæviþaktra fjallstinda, óblíðra sífrera og kolsvartra hafdjúpa sem iða af sjávarlífi,“ segir um skipið á á vefnum superyachttimes.com.

Innanstokks bera innréttingar keim af áhugamálum Strzhalkovskís. „Eigandinn er gríðarlega áhugasamur um miðaldaorrustur og -vopn,“ segir á superyachttimes.com.

Ragnar getur brotist í gegn um heimskautaís og hefur afl til að takast á við öll veður,“ segir á burg­essy­achts.com. Gestir munu þurfa að minnsta kosti viku til að reyna öll leikföngin um borð, þar með talda Airbus EC145-þyrlu og þriggja manna kafbát,“ segir enn fremur á burgessyachts.com þar sem fleyið hefur verið boðið til sölu.

Auðævi Vladimírs Strzhalkovskí, eiganda Ragnars, eru metin á 400 milljónir Bandaríkjadollara eða því sem nemur 50 milljörðum íslenskra króna.

Hinn 67 ára Strzhalkovskí er hagfræðimenntaður frá Lenín­grad­háskólanum í St. Pétursborg í Rússlandi. Hann starfaði innan stjórnsýslunnar í heimalandi sínu, meðal annars innan leyniþjónustunnar KBG, þar sem hann komst í kynni við Vladímír Pútín, síðar forseta Rússlands. Strzhalkovskí auðgaðist meðal annars á 100 milljóna dala starfslokasamningi hjá málmfyrirtækinu Norilsk Nickel árið 2011.

Fyrir áhugasama fylgir hér myndasyrpa af þessu forvitnilega skipi. Virðast sumar myndanna jafnvel teknar við Íslandsstrendur og gætu lesendur spreytt sig og kannað hvort þeir þekkja landslagið í bakgrunni myndanna

Mynd/SuperYachtTimes
Mynd/SuperYachtTimes
Mynd/SuperYachtTimes
Mynd/SuperYachtTimes
Mynd/SuperYachtTimes
Mynd/SuperYachtTimes
Mynd/SuperYachtTimes
Mynd/SuperYachtTimes
Mynd/SuperYachtTimes
Mynd/SuperYachtTimes
Mynd/SuperYachtTimes
Mynd/SuperYachtTimes
Mynd/SuperYachtTimes
Mynd/SuperYachtTimes
Mynd/SuperYachtTimes
Mynd/SuperYachtTimes
Mynd/SuperYachtTimes