Óperan Mærþöll eftir Þórunni Guðmundsdóttur verður frumsýnd í Gamla bíói næstkomandi fimmtudag. Óperunni er lýst sem fullorðins ævintýraóperu og er söguþráðurinn byggður á Mærþallar sögu, gömlu íslensku ævintýri.
„Það er svo skemmtilegt að það eru svo margar kvenpersónur í þessu ævintýri, þar á meðal þrjár álfkonur. Það er nú þannig bæði í leikritum og óperum að það hallar svo oft á konur, það eru gjarnan miklu fleiri karlhlutverk. Þannig að þegar ég fann þessa sögu þá fannst mér alveg tilvalið að taka hana og vinna með hana tónlistarlega,“ segir Þórunn sem skrifar bæði libretto og tónlist óperunnar.
Þórunn kveðst hafa uppgötvað Mærþallar sögu í Þjóðsögum Jóns Árnasonar og fundist hún vera full af skemmtilegum uppákomum og sterkum tilfinningum á borð við glettni og harm.

„Það eru ýmis minni þarna sem maður kannast við úr öðrum ævintýrum, álög, galdrar og afbrýðisemi. Svo finnst mér alltaf svo skemmtilegt með þessi íslensku ævintýri að það eru oft bara kotungsfólk og hversdagspersónur sem kynnast fólki frá hirðinni, prinsum og líka yfirnáttúrulegum verum eins og álfum.“
Sönghópurinn samanstendur bæði af reynsluboltum úr óperuheiminum og yngri söngvurum svo sem Bjarna Thor Kristinssyni, Hönnu Dóru Sturludóttur, Eyjólfi Eyjólfssyni, Björk Níelsdóttur, Erlu Dóru Vogler, Gunnlaugi Bjarnasyni, Halldóru Ósk Helgadóttur, Heiðdísi Hönnu Sigurðardóttur, Kristínu Sveinsdóttur, Lilju Guðmundsdóttur, Ólafi Frey Birkissyni og Þórgunni Önnu Örnólfsdóttur.
„Það er bara mjög skemmtilegt að sjá þennan hóp vinna saman því það virðast allir geta sýnt sínar sterkustu hliðar. Ég er mjög ánægð með þennan sönghóp og það er valinn maður í hverju rúmi,“ segir Þórunn.

Meðleik á sýningum annast átta manna kammersveit, konsertmeistari er Hildigunnur Halldórsdóttir. Búninga- og leikmyndahönnuður er Eva Björg Harðardóttir og leikstjóri er Bjarni Thor Kristinsson.
Að sögn Þórunnar höfðar óperan bæði til barna og fullorðinna og ætti alls ekki að einskorðast við þá sem eru vanir óperuforminu.
„Við höfum fengið fólk á æfingar og það hafa allir náð að hrífast með myndi ég segja. Þetta er alls ekki þannig að maður þurfi að vera einhver sérfræðingur í óperum til að geta notið þess að koma. Þetta er hugsað fyrir fullorðna en ég er viss að börn geta líka notið þess að koma.“
Þá segir Þórunn einstaklega gaman að fá að sýna óperuna í Gamla bíói þar sem Íslenska óperan sleit barnsskónum. „Okkur finnst fara mjög vel um þessa hertogahöll, þar sem verkið gerist aðallega, í þeirri höll sem Gamla bíó er.“