Óperan Mær­þöll eftir Þórunni Guð­munds­dóttur verður frum­sýnd í Gamla bíói næst­komandi fimmtu­dag. Óperunni er lýst sem full­orðins ævin­týraóperu og er sögu­þráðurinn byggður á Mær­þallar sögu, gömlu ís­lensku ævin­týri.

„Það er svo skemmti­legt að það eru svo margar kven­per­sónur í þessu ævin­týri, þar á meðal þrjár álf­konur. Það er nú þannig bæði í leik­ritum og óperum að það hallar svo oft á konur, það eru gjarnan miklu fleiri karl­hlut­verk. Þannig að þegar ég fann þessa sögu þá fannst mér alveg til­valið að taka hana og vinna með hana tón­listar­lega,“ segir Þórunn sem skrifar bæði libretto og tón­list óperunnar.

Þórunn kveðst hafa upp­götvað Mær­þallar sögu í Þjóð­sögum Jóns Árna­sonar og fundist hún vera full af skemmti­legum upp­á­komum og sterkum til­finningum á borð við glettni og harm.

Þórunn Guðmundsdóttir semur bæði libretto og tónlist óperunnar.
Mynd/Aðsend

„Það eru ýmis minni þarna sem maður kannast við úr öðrum ævin­týrum, álög, galdrar og af­brýði­semi. Svo finnst mér alltaf svo skemmti­legt með þessi ís­lensku ævin­týri að það eru oft bara kotungs­fólk og hvers­dag­s­per­sónur sem kynnast fólki frá hirðinni, prinsum og líka yfir­náttúru­legum verum eins og álfum.“

Söng­hópurinn saman­stendur bæði af reynslu­boltum úr óperu­heiminum og yngri söngvurum svo sem Bjarna Thor Kristins­syni, Hönnu Dóru Sturlu­dóttur, Eyjólfi Eyjólfs­syni, Björk Níels­dóttur, Erlu Dóru Vog­ler, Gunn­laugi Bjarna­syni, Hall­dóru Ósk Helga­dóttur, Heið­dísi Hönnu Sigurðar­dóttur, Kristínu Sveins­dóttur, Lilju Guð­munds­dóttur, Ólafi Frey Birkis­syni og Þór­gunni Önnu Örn­ólfs­dóttur.

„Það er bara mjög skemmti­legt að sjá þennan hóp vinna saman því það virðast allir geta sýnt sínar sterkustu hliðar. Ég er mjög á­nægð með þennan söng­hóp og það er valinn maður í hverju rúmi,“ segir Þórunn.

Söng­hópurinn saman­stendur bæði af reynslu­boltum úr óperu­heiminum og yngri söngvurum.
Mynd/Eyþór Árnason

Með­leik á sýningum annast átta manna kammer­sveit, kon­sert­meistari er Hildi­gunnur Hall­dórs­dóttir. Búninga- og leik­mynda­hönnuður er Eva Björg Harðar­dóttir og leik­stjóri er Bjarni Thor Kristins­son.

Að sögn Þórunnar höfðar óperan bæði til barna og full­orðinna og ætti alls ekki að eins­korðast við þá sem eru vanir óperu­forminu.

„Við höfum fengið fólk á æfingar og það hafa allir náð að hrífast með myndi ég segja. Þetta er alls ekki þannig að maður þurfi að vera ein­hver sér­fræðingur í óperum til að geta notið þess að koma. Þetta er hugsað fyrir full­orðna en ég er viss að börn geta líka notið þess að koma.“

Þá segir Þórunn ein­stak­lega gaman að fá að sýna óperuna í Gamla bíói þar sem Ís­lenska óperan sleit barns­skónum. „Okkur finnst fara mjög vel um þessa her­toga­höll, þar sem verkið gerist aðal­lega, í þeirri höll sem Gamla bíó er.“