Leikarinn Ævar Þór Benediktsson, sem er hvað þekktastur fyrir að leika nafna sinn, vísindamanninn, lét hressilega að sér kveða í fjórða þætti sakamálaseríunnar Svörtu sandar á Stöð 2 þar sem hann leikur rannsóknarlögreglumanninn Gústa sem lét ekki síður að sér kveða í kynlífssenum en morðrannsókninni sem þættirnir hverfast um.

Viðbrögðin við þessari nýju hlið á leikaranum létu ekki á sér standa á samfélagsmiðlum þar sem einhverjum fannst þau þarna hafa séð fullmikið af Ævari vísindamanni og að sá yrði vart samur í þeirra huga.

Sjálfur segist Ævar þó ekki hafa nokkrar áhyggjur af því að innkoma hans í Svörtu söndum muni sverta æru vísindamannsins. „Af því að þetta er ekkert Ævar vísindamaður. Það er nefnilega munurinn. Þú getur borið saman myndir af þessum tveimur persónum og farið í leikinn finndu fimm villur og fundið fleiri vegna þess að þetta er bara alveg sitt hvor týpan,“ segir Ævar og bendir á hið augljósa. Að þarna sé ekki sena úr Ævari vísindamanni heldur úr Svörtum söndum. „Sem er bannað innan sextán og sýnt á kvöldin. Í því liggur munurinn.

Hins vegar skil ég alveg viðbrögðin og finnst þau bara afar skemmtileg og segi bíðiði bara!“ segir Ævar og hlær áður en hann bendir á að vissulega sé ekki hægt að horfa fram hjá því að hann hafi verið Ævar vísindamaður í mörg ár.

„Þannig að ég skil þetta alveg, að ég tali nú ekki um þegar persónan sem maður er kannski þekktastur fyrir heitir í höfuðið á manni sjálfum. Þegar maður er ekki frumlegri en það,“ segir hann hlæjandi.

„Þá getur stundum verið dálítið erfitt að skilja á milli en það er þá bara skemmtileg áskorun fyrir mig sem leikara og listamann að koma með nýjar persónur sem vonandi eru nógu ólíkar til þess að einhver munur sé á.“

Ævar segist hafa skemmt sér afskaplega vel við gerð Svörtu sanda, enda „brjálæðislega gaman að fá að gera eitthvað svona allt annað og fá tækifæri til að búa til persónu sem er ólík öllu öðru sem ég hef gert hingað til og ég held það sé líka gaman fyrir áhorfendur að fá einhverja svona allt öðruvísi hlið.“