Leikarinn Ævar Þór Benediktsson gerði feðrum viðvart inn á Facebook hópnum „Pabbatips“ í gær að hann hefði nýverið talsett nýja þætti af hinu geysivinsæla barnaefni Hvolpasveitinni, og sagði í léttum dúr að það væri til þess að „allir geti undirbúið sig andlega,“ en ljóst er að margir pabbarnir hafa séð þættina með börnunum sínum aftur og aftur.

„Kæru feður. Finnst það vera skylda mín að láta ykkur vita að ég var að talsetja nýja þætti af Hvolpasveit, þar af einn special sem er tvöfaldur. Bara svona til að allir geti undirbúið sig andlega. Það er s.s. meira á leiðinni,“ ritar Ævar í hópinn við mikla kátínu meðlima hópsins sem segjast ansi þreyttir á að horfa á útgefna þætti ótal sinnum. 

Í samtali við Fréttablaðið segir Ævar að eftir að hann uppljóstraði um útgáfu nýjustu seríunnar á vefnum hafi hann fengið þónokkrar fyrirspurnir. 

„Það komu nokkrar eftir að ég sagði frá því að nýir þættir væru handan við hornið, svo það er greinilega mikill spenningur fyrir þessu,“ segir Ævar léttur í dúr en líkt og flestir vita fjalla þættirnir um ævintýri Róberts og hressu hvolpanna í Hvolpasveitinni sem takast á við hin ýmsu verkefni. 

Aðspurður segist Ævar ekki hafa það nákvæmlega á hreinu hversu margir þættir munu koma til með að verða gefnir út en segir að foreldrar þurfi ekki að hafa áhyggjur, þess sé ekki langt að bíða þar til þættirnir verði komnir í sýningu á RÚV. 

„Ég hef ekki hugmynd um hvað þeir eru margir, en það má alveg gera ráð fyrir því að um sé að ræða nokkra þætti. Mér skilst að þetta eigi að byrja næstu helgi, þannig að fólk þarf ekki að bíða lengi.“