Íraska leik­konan Enas Taleb ætlar í hart við breska tíma­ritið Economist vegna myndar sem birtist af henni í um­fjöllun blaðsins um of­fitu í júlí­hefti tíma­ritsins.

Í um­fjölluninni var bent á að konur eru feitari en karlar í Araba­heiminum og reynt að varpa ljósi á á­stæður þess. Með um­fjölluninni birtist mynd af Taleb sem tekin var á verð­launa­há­tíð í Írak í fyrra­haust.

Í frétt BBC kemur fram að Taleb telji að mynd­birtingin brjóti gegn frið­helgi hennar og þá hafi hún verið birt án hennar leyfis. Þá heldur hún því fram að búið sé að eiga við myndina sem hægt er að nálgast í mynda­banka Getty-mynd­veitunnar.

Taleb er nú sögð vera að undir­búa stefnu í Bret­landi gegn for­svars­mönnum Economist-tíma­ritsins. Segir hún að greinin – og mynd­birtingin – sé móðgun við konur í Araba­heiminum og veltir því upp hvers vegna tíma­ritið beinir sjónum sínum ekki frekar að feitum konum í Evrópu eða Banda­ríkjunum.

Taleb er ein þekktasta leik­kona Íraks og til marks um það eru fylgj­endur hennar á Insta­gram níu milljónir talsins.