Fegurðardrottningin Manuela Ósk Harðardóttir hefur um árabil stýrt íslenskum hluta Miss Universe, hvar fyrirsætan Elísa Gróa Steinþórsdóttir bar sigur úr býtum í lok september, þegar hún tók þátt í fjórða skipti.

„Ég er virkilega spennt og það er ótrúlega mikið að gera, enda heilmikil dagskrá. Ég reyni samt að passa upp á heilsuna og taka smá slökun inn á milli,“ segir Elísa, sem leggur af stað aðfaranótt sunnudagsins, lauflétt og spennt fyrir förinni, sem er meðal annars heitið til Tel Aviv og Eilat við Dauðahafið.

„Ég verð í þrjár vikur úti. Ég er ekki alveg búin að fá nákvæma dagskrá en ég geri ráð fyrir því að það verði dagskrá frá morgni til kvölds alla daga.“

Keppni

Skilur tortryggnina

Þegar Elísa er spurð út í fegurðarsamkeppnir almennt og þá nokkuð útbreiddu skoðun að þær séu barn síns tíma, segist hún skilja það viðhorf: „Það er ótrúlega skiljanlegt að margir á Íslandi séu á þeirri skoðun. Mér skilst einmitt að fyrir minn tíma hafi þetta verið þannig að þú þurftir að vera í ákveðinni fatastærð og stelpurnar voru vigtaðar og svoleiðis,“ segir Elísa og bendir á að þetta hafi breyst.

„Þetta er ekki þannig í dag, sem betur fer. Það er árið 2021 og í stærstu keppni í heimi, Miss Universe, er verið að leita að góðri fyrirmynd. Það er verið að leita að ungri konu sem getur talað fyrir sig, sem hefur eitthvað að segja og getur verið hvatning fyrir ungt fólk og alla.“

Elísa segir að því miður sé til aragrúi af fegurðarsamkeppnum úti í heimi þar sem enn er lögð áhersla á ranga hluti. „Það eru til mörg hundruð keppnir og þetta er mjög mismunandi. Ég hef til dæmis farið á minni keppni í Kína og ég er ekki til í að mæla með henni,“ segir Elísa.

„Því miður eru enn til keppnir úti í heimi sem eru með þetta hugarfar að það sé bara verið að leita að einhverri Barbie-dúkku.“

Horfði með mömmu sinni

Í Miss Universe er lögð áhersla á að ræða mál sem skipta raunverulegu máli að sögn Elísu. Þannig ræddi Elísa meðal annars um geðheilbrigðismál í Miss Universe Iceland.

„Ég er virkilega þakklát fyrir þennan vettvang og það var gífurlega mikil áhersla á það í keppninni að maður hefði eitthvað að segja.“

Elísa segist hafa haft áhuga á slíkum keppnum frá því hún var lítil. „Ég og mamma elskum kjóla og glimmer og glamúr og okkur fannst svo gaman að horfa á keppnirnar til að sjá kjólana,“ segir Elísa sem segist ætla að reyna að taka bara með sér fjórar ferðatöskur út. Þær verði þó líklegast fimm.

„Þannig kviknaði áhuginn og svo þegar Miss Universe Iceland hóf göngu sína þá bara varð ég að prófa,“ segir Elísa, sem gafst aldrei upp og fór á endanum með sigur af hólmi. „Og keppnin er náttúrulega eins og Ólympíuleikarnir í þessum bransa.“