Rithöfundasamband Íslands og Hagþenkir standa fyrir málþingi um höfundarrétt og siðferði í Þjóðminjasafninu í dag en mikil umræða hefur verið undanfarið um höfundarrétt, brot á honum og gráu svæðin sem höfunda­lög ná ekki yfir.

Bergsveinn Birgisson rithöfundur er einn þeirra sem staðið hafa í eldlínunni í þessum umræðum eftir að hann sakaði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra um að hafa stolið hugmyndum sem settar voru fram í bók Bergsveins Leitinni að svarta víkingnum og notað þær án þess að geta heimilda í bókinni Eyjunni hans Ingólfs. Bergsveinn fagnar því að málþingið eigi sér stað en segist ekki ætla að mæta.

„Ég hafði beðið Rithöfundasambandið um að gera eitthvað slíkt, þeir gerðu það en þeir höfðu reyndar hvorki samband við mig né Kristínu Eiríksdóttur sem höfum staðið svolítið á vígvellinum,“ segir hann.

Vísar Bergsveinn þar til þess að rithöfundurinn Kristín Eiríksdóttir hefur einnig staðið í deilum um höfundarrétt eftir að hún sakaði höfunda þáttanna Systrabanda um að byggja á leikriti hennar Hystory.

„Mér finnst nú að það hefði alveg verið pláss fyrir eina litla reynslusögu af vígvellinum en það er einhvern veginn svona heimspeki þessa lands, það á aldrei að tala við fólkið sem reynir eitthvað. Það er að segja ef þú ætlar að leggja veg einhvers staðar þá hlustarðu aldrei á heimamenn og ef þú ætlar að bæta heilbrigðiskerfið þá hlustarðu aldrei á fólkið sem er að vinna þar. Þannig að ég hugsa að ég nenni nú ekki að mæta á þetta,“ segir hann.

Bergsveinn bætir þó við að honum þyki gott að málþingið fari fram og sé ánægður með áframhaldandi umræður um málefni höfundarréttar.

Finnst þér Rithöfundasambandið vera að taka á þessum málum af linkind?

„Þeir náttúrlega bara svöruðu mér með einni setningu: „Þú getur prófað að tala við Hagþenki og gangi þér vel.“ Maður er náttúrlega alltaf að taka þetta bara einhvern veginn einn á kassann. Það er enginn að bakka þig upp.“

Að sögn Bergsveins vantar kerfislægan stuðning fyrir höfunda og fræðimenn sem lenda í ritstuldi og eitthvert kerfi sem barist getur fyrir þeirra hagsmunum. Bergsveinn birti grein um sína upplifun af ritstuldarmálinu í tímaritinu Sögu í vor og vinnur nú að framhaldsgrein.

Mér finnst nú að það hefði alveg verið pláss fyrir eina litla reynslusögu af vígvellinum en það er einhvern veginn svona heimspeki þessa lands, það á aldrei að tala við fólkið sem reynir eitthvað.