Belgíski konseptlistamaðurinn Floris Bocca­negra undirbýr gjörning sem felst í því að safna saman vatni frá nokkrum íslenskum jöklum, frysta það í stærðarinnar kúlu sem hann ætlar að ýta á undan sér upp hlíðar fyrrverandi jökulsins Oks.

„Ég sé fyrir mér að það verði upplagt að gera þetta í september eða október en það ræðst af því hvernig COVID-mál þróast,“ sagði Floris um verkið Sisyphus 2.0 þegar Fréttablaðið náði sambandi við hann í Brussel.

Gjörningurinn er nútímaútgáfa af grísku goðsögninni um Sísífús sem guðirnir dæmdu til þess að velta síendurtekið og til eilífðarnóns bjargi upp bratta hlíð. „Núna erum við ekki að hæðast að og ögra guðunum heldur náttúrunni og hvort sem okkur líkar betur eða verr þá verður okkur líka refsað fyrir það.“

Hálft tonn af vatni

„Ég hef aldrei komið til Íslands en í för með mér verður kvikmyndagerðarfólk sem hefur komið margoft til landsins og eru ofboðslega miklir aðdáendur þess,“ segir Floris sem ætlar að gera „litla heimildarmynd“ um verkefnið.

„Ok er fyrsti nafnkunni jökullinn til að missa titil sinn. Á næstu 200 árum er talið að allir jöklar landsins fari sömu leið,“ segir í texta Andra Snæs Magnasonar á minnisvarðanum um jökulinn Ok.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Tengingin við eldfjallið Ok og sú staðreynd að það hefur misst formlega stöðu sína sem jökull er ástæðan fyrir því að ég vil gera þetta á Íslandi. Fyrir mér eru örlög Oks fyrsta táknið um áþreifanleg áhrif hnattrænnar hlýnunar í Evrópu og mér finnst þetta einhvern veginn ofurljóðrænt,“ segir Floris, sem gerir ráð fyrir tveimur Íslandsferðum í kringum listgjörninginn.

„Ég stefni á að koma fljótlega til þess að undirbúa þetta og finna frysti sem er nógu stór til þess að búa til ískúluna mína. Hún vegur um 500 kíló og verður vafin inn í þykk lög af efni sem munu gera mér kleift að ýta henni upp eldfjallið.“

Fegurðarþversögnin

Ok varð fyrir nokkrum misserum fyrsti nafnkunni jökullinn til að missa þá nafnbót og Floris segist með verkinu vilja gangast við óbeinum þætti sínum í hnattrænni hlýnun og rýrnun jökla. „Sem borgari í iðnaðarríki eins og Belgíu geri ég mér grein fyrir að kolefnisspor mitt er frekar stórt þótt Belgía sé kannski ekki líkleg til að finna beint fyrir afleiðingum hnattrænnar hlýnunar í nánustu framtíð,“ segir listamaðurinn.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra biðlaði við athöfn á Oki í fyrra til heimsbyggðarinnar að grípa til róttækra aðgerða gegn hamfarahlýnun.
Fréttablaðið/Sigtryggur

„Um Ísland gegnir hins vegar öðru máli og þar eru skelfilegar afleiðingarnar orðnar áþreifanlegar að ógleymdri þeirri áhugaverðu þversögn að ferðamenn sem koma til Íslands eru í raun að ýta undir eyðingu umhverfisins og í raun að eyðileggja það sem þeir eru komnir til að sjá,“ segir Floris sem veit upp á sig skömmina.

Hendur á ís

„Rannsóknarvinna mín leiddi mig að Oki sem er fullkominn staður fyrir gjörninginn og þótt Ok sé ekkert Mount Everest mun þetta samt reyna verulega á og það má segja að ég vilji með táknrænum hætti leggja mitt af mörkum til þess að laga það sem ég hef tekið þátt í að eyðileggja með því að skila einhverju aftur á fjallstoppinn,“ segir Floris sem vonast til að vekja athygli og umhugsun.

„Það eru góðar líkur á því að megnið af ísnum verði bráðnað þegar ég kemst á toppinn. Sérstaklega ef ég geri þetta einn og þess vegna býð ég öðrum að taka þátt.“

Floris segist sjá fyrir sér að Sísífúsarverkið taki eina helgi og þegar þar að kemur muni hann þá byrja að ýta ískúlunni upp hlíðar Oks einsamall á laugardeginum en á sunnudeginum sé öllum sem vilja velkomið að elta hann uppi og leggja hönd á klaka.

Hægt er að fylgjast með Floris á Instagram