Prins Harry er enn í Bret­landi og er talinn ætla að bíða fram yfir af­mæli drottningarinnar, ömmu sinnar, á morgun, þar til hann fer aftur heim til eigin­konu sinnar Meg­han Mark­le. Greint er frá á er­lenda miðlinum Page Six.

Harry er í Bret­landi vegna jarðar­farar Filippusar prins sem fór fram síðasta laugar­dag. Mark­le mátti ekki fljúga í jarðar­förina vegna þungunar sinnar en hún á von á þeirra öðru barni í sumar. Mark­le skrifaði Filippusi bréf sem var lagt við blóm­sveig í at­höfninni síðasta laugar­dag.

Harry og bróðir hans Vil­hjálmur gengu ekki hlið við hlið í lík­fylgd í jarðar­förinni, heldur var frændi þeirra, sonur Önnu prinsessu, á milli þeirra. Það er sagt að það hafi verið að beiðni Vil­hjálms. Þeir bræður sástu þó tala saman eftir at­höfnina og er greint frá því að Harry, Karl og Vil­hjálmur hafi átt tveggja tíma sam­tal til að reyna að sættast en ó­sætti hefur verið á milli þeirra frá því að Harry og Meg­han opin­beruðu kyn­þátta­hatur sem Mark­le varð fyrir af hendi konungs­fjöl­skyldunnar í spjall­þætti Oprah Wind­frey.

„Ef það gengur allt vel gæti hann verið á­fram fyrir af­mæli drottningarinnar,“ sagði heimildar­maður blaðinu Sun sem sagði að Harry myndi einnig vera með bróður sínum þegar stytta til minningar um móðir hans, Díönu prinsessu, verður af­hjúpuð þann 1. júlí við Kensington-höll.

Starfs­menn hallarinnar eru sagðir vonast til þess að það hjálpi til að minnka spennu á milli bræðranna en af­hjúpunin fer fram á hvað hefði verið 60 ára af­mæli móðir þeirra.

Bræðurnir gengu ekki hlið við hlið.
Fréttablaðið/EPA