„Mér finnst aðallega mikilvægt að ég er að gera þetta fyrir Reykjadal, en ég er einmitt þar núna. Síðan náttúrlega held ég líka að þetta gæti orðið gaman,“ segir hinn þrettán ára gamli Vilhjálmur Hauksson sem ætlar að rúlla tíu kílómetra á hjólastólnum sínum fyrir Reykjadal, sumarbúðir Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn.

Hann segir starfið í Reykjadal frábært og sumarbúðirnar svo sannarlega í miklu uppáhaldi enda hafi hann haft bæði mikið gagn og gaman af dvöl sinni þar.

„Ég er búinn að safna næstum því 300.000 krónum núna, sem er náttúrlega slatti, og held að Reykjadalur geti svo sannarlega notað þann pening. Mér finnst aðallega frábært að geta hjálpað þeim,“ segir Vilhjálmur sem býst við að geta hækkað upphæðina talsvert þar sem enn er tími til stefnu í áheitasöfnuninni. „Þetta breytist mjög hratt á stuttum tíma.“

Vildi gera eitthvað

Vilhjálmur segir sig hafa langað til að gera eitthvað fyrir Reykjadal þegar hann fór að velta Reykjavíkurmaraþoninu fyrir sér. „Ég vissi að Reykjadal vantaði fjárhagslegan stuðning og mig langaði að gera eitthvað en datt bara ekkert í hug. Svo spyr pabbi minn, sem er formaður CP félagsins, hvort ég vilji ekki styrkja CP félagið en CP er sem sagt fötlunin mín.

Hann segir við mig: „Já, Vilhjálmur. Vilt þú ekki styrkja CP félagið? Þú getur farið á rafmagnshjólastólnum í maraþonið og styrkt félagið.“ Og ég var til í það og sagði bara já.“

Óvænt stefnubreyting

Nokkrum dögum seinna kom það upp í samtali Vilhjálms og starfsmanns í Reykjadal að hann ætlaði að hlaupa fyrir CP félagið. „Og þá segist hann ætla að gera það fyrir Reykjadal. Ég vissi ekkert að það væri hægt og um leið og ég heyrði það vildi ég fá að breyta. Auðvitað er ég ekkert á móti CP félaginu en mér finnst þau kannski ekki þurfa jafn mikið á þessu að halda og Reykjadalur.“

Vilhjálmur segir ánægjulegt að margir fleiri ætli að hlaupa fyrir Reykjadal. „Ég hef verið svolítið í fjölmiðlum og svoleiðis. Ég var Krakkafréttamaður á RÚV og hef verið í leiklist,“ segir Vilhjálmur og segist gruna að ákvörðun hans hafi beint sjónum fleiri hlaupara að sumarbúðunum.

Kjörið fyrir torfærustólinn

Vilhjálmur fer kílómetrana tíu á rafmagnshjólastól en segist þó vel hafa treyst sér til þess að fara leiðina á handaflinu. „Venjulega er ég bara á hjólastól sem ég nota hendurnar til að keyra. En hann er sem sagt orðinn mjög lélegur og ég er alveg hræddur um að hann mundi detta í sundur ef ég færi þessa tíu kílómetra á honum.“

Vilhjálmur segist eiga von á nýjum hjólastól en hann muni ekki berast í tæka tíð fyrir hlaupið um helgina. „Annars myndi ég mögulega gera það en ég á líka svona torfærustól sem ég hef notað þegar ég er að fara eitthvað út og svoleiðis og ég held bara að þetta sé kjörið tækifæri til þess að nota hann,“ segir Vilhjálmur sem, eins og aðrir hlauparar í maraþoninu, er enn að safna áheitum á fullu á hlaupa­styrkur.is.