Sif Atladóttir, landsliðsmiðvörður í fótbolta, sneri heim á síðasta ári eftir tólf ár í atvinnumennsku í Svíþjóð þar sem hún afrekaði meðal annars að vera leikjahæsti Íslendingurinn í sögu sænsku úrvalsdeildarinnar. Hún og eiginmaður hennar, Björn Sigurbjörnsson, eru búsett á Selfossi ásamt tveimur börnum sínum en Sif leikur með Selfossi í Bestu deild kvenna. Sif verður einn af burðarásunum í íslenska landsliðinu sem tekur þátt í EM í Englandi í næsta mánuði en fyrsti leikurinn er 10. júlí gegn Belgíu.

„Þetta verða mjög erfiðir leikir. Kvennaboltinn í Belgíu og Ítalíu hefur tekið miklum framförum á síðustu árum. Ítalska deildin er atvinnumannadeild og leikmenn Belgíu spila margar í löndunum í kring sem segir til um gæði leikmannanna. Frakkland þekkjum við vel og er eitt af bestu landsliðum heims.“

Hún segir stemninguna vera góða í landsliðshópnum. Þessa dagana eru leikmenn að klára síðustu leiki fyrir EM gluggann og hópurinn mun hittast í næstu viku.

„Persónulega ætla ég að gera mitt til að hjálpa liðinu í því hlutverki sem mér verður úthlutað. Sem eldri leikmaður þá er það á okkur að gefa af okkur til þeirra yngri hvað varðar reynslu á svona mótum. Við erum með margar stelpur sem eru að stíga sín fyrstu skref á stórmóti. Því vil ég hjálpa þeim eins vel og ég get því ég hef trú á því að þessi kynslóð muni halda áfram á þeirri vegferð sem við höfum verið í síðastliðin ár.“

Atli Eðvaldsson (t.v.), faðir Sifjar, bjó hjá Sif og Birni í Svíþjóð árin 2017 til 2018. MYND/ÚR EINKASAFNI

Á gott bakland

Pabbi Sifjar, Atli Eðvaldsson, var einnig atvinnumaður í fótbolta, landsliðsmaður og seinna farsæll þjálfari. Hann hafði mikil áhrif á hana eins og reyndar fleiri fjölskyldumeðlimir.

„Þegar kemur að íþróttum hef ég verið ótrúlega heppin með stuðning frá foreldrum mínum, systkinum, eiginmanni og tengdafjölskyldu. Þetta hefur verið lykill að góðum ferli og pabbi var eitt akkeri þar. Ég, eins og fleiri afreksíþróttamenn, er mjög sjálfsgagnrýnin og átti oft erfitt með að sjá það jákvæða í leiknum hjá mér þegar leikir töpuðust. Þá var alltaf tekið spjall þar sem hann spurði hvað ég gerði vel og hvað væri hægt að læra af þessum leik. Þetta voru alltaf jákvæðar og uppbyggjandi samræður. Þótt pabbi sé ekki lengur hér þá hef ég samt þetta akkeri í Bjössa og fólkinu mínu, sem er ómetanlegt.“

Hún segir pabba sinn alltaf talað um mikilvægi þess að hugsa vel um yngri leikmenn liðsins.

„Ef það er stanslaus yfirgangur gagnvart yngri leikmönnum, bara af því að þeir eru yngri, hvers vegna ættu þeir að senda á þig þegar þú ert í færi fyrir framan markið eða hlusta á þig þegar þú segir eitthvað inni á vellinum? Ég hef því reynt að temja mér það að vera til staðar fyrir yngri leikmenn. Það er erfitt að koma því í orð hvaða áhrif pabbi hafði á mig sem leikmenn en ég held að við séum líkir karakterar sem leikmenn. Vinnusemi, þrautseigja, réttlætiskennd og stórt hjarta lýsir okkur nokkuð vel.“

Sif hlakkar til að njóta lífsins meira með fjölskyldunni fyrir utan fótboltann þegar þar að kemur. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Hefur ríka réttlætiskennd

Utan fótboltans segist Sif fyrst og fremst vera mikil fjölskyldumanneskja.

„Að stunda afreksíþróttir er alls ekki fjölskylduvæn atvinna þar sem ég þarf stanslaust að hugsa um hvíld, mat og endurheimt til að geta verið í toppformi þegar kemur að æfingum og leikjum. Því nýti ég tíma minn með Bjössa og börnunum og oft erum við bara í rólegheitum heima, þar sem möguleikinn á hvíld fyrir mig er fyrir hendi. Þar sem við hjónin erum bæði á fullu í boltanum þá hefur það verið ómetanlegt að eiga fjölskyldurnar okkar að, sem hafa skilning á tímaplani okkar og hafa boðið börnunum okkar með í allskonar ævintýri. Ég get alveg sagt að ég hlakka til að njóta lífsins með þeim fyrir utan fótboltann þegar þar að kemur.“

Henni finnst einnig gaman að bíómyndum og þáttum, tónlist og að hittast í góðra vina hópi.

„Ég er mikil alæta þegar kemur að sjónvarpi, en uppáhalds þættirnir mínir eru RuPauls Drag Race. Einnig finnst mér gaman að ferðast. Starfsins vegna hef ég komið víða en séð meira af hótelum og fótboltavöllum þannig að ég hlakka til að geta verið hefðbundinn túristi. Svo finnst mér gaman að lesa og detta í góða bók. Ég er mikil réttlætismanneskja og reyni að finna bækur sem gefa mér annað sjónarhorn en mitt eigið.“

Sif með dóttur sína, Sólveigu, sem þarna var tveggja ára gömul. MYND/ÚR EINKASAFNI

Er mikil dellukona

Hún segist oft velta fyrir sér hver hún sé utan fótboltans því boltinn sé búinn að vera svo stór hluti af henni í svo langan tíma.

„Ég á enn þá erfitt með að aðskilja fótboltann frá Sif. Ég held að margt íþróttafólk geti alveg tengt við þetta, því við erum svo mikið skilgreind út frá íþróttinni okkar.“

Sif er mikil dellukona að eigin sögn og segist hella sér í þá hluti sem hún fær áhuga á.

„Það varir samt ekki að eilífu og þegar ég finn eitthvað annað þá tekur það yfir. Ég heyrði frá framhaldsskólakennaranum mínum á sínum tíma að ég væri hálfgert fiðrildi og flaug svolítið þangað sem vindurinn tekur mig. Mér fannst þetta fáránlegt á sínum tíma en því eldri sem ég verð, því meira sé ég hvað hún var að tala um.“

Björn, ásamt börnum þeirra Sifjar, í október 2020. MYND/ÚR EINKASAFNI

Verður alltaf tengd boltanum

Eftir að fótboltaferlinum lýkur sér Sif fram á að helga líf sitt meira áhugamálum barna sinna.

„Dóttir okkar er farin að æfa íþróttir og ég hlakka mikið til að geta fylgt henni og stutt hana í því sem hún gerir, eins og mamma gerði með okkur systkinin. Svo tel ég líklegt að ég verði tengd fótboltanum áfram með því að fylgja Bjössa eftir í ævintýrum hans í þjálfuninni. Svo hlakka ég auðvitað til þess að verja meiri tíma með fjölskyldu og vinum.“

Sif lauk BS námi í lýðheilsufræðum frá háskólanum í Kristianstad meðan hún spilaði þar og hóf síðan meistaranám í íþróttavísindum við Linnéháskólan í Kalmar/Växjö.

„Ég tók ákvörðun að fara í nám þegar ég varð ólétt af stelpunni minni haustið 2014 því ég áttaði mig á því að ég þyrfti að skipuleggja lífið mitt eftir fótboltann. Menntunin mín hefur ýtt undir áhuga minn á íþróttahreyfingunni og mikilvægi þess að haldast inni í fótboltanum með mína reynslu.“

Sólveig ásamt Steinunni Guðnadóttur, ömmu sinni og móður Sifjar, þegar þær skruppu til Íslands 2019. MYND/ÚR EINKASAFNI

Spennandi verkefni

Eftir komuna heim hóf hún störf hjá Leikmannasamtökum Íslands sem hún segir mjög spennandi verkefni.

„Eins og staðan er í dag er Ísland langt á eftir hvað varðar mál leikmanna hér á landi miðað við aðrar þjóðir. Leikmannasamtök Íslands hafa mest verið að aðstoða leikmenn við samningamál, allt frá að semja fyrir leikmenn og að sækja fjárhagslegan rétt leikmanna þegar brotið hefur verið á samningi við leikmenn. Við viljum einnig hjálpa leikmönnum með ýmsa aðra hluti í framtíðinni. Ég vil klárlega halda mér inni í íþróttunum á einhvern hátt og sé mig alveg fara inn í Knattspyrnusambandið á einhverjum tímapunkti. Hver veit, kannski enda ég bara sem formaður einn daginn.“

Björn og Sólveig í Danmörku 2018. MYND/ÚR EINKASAFNI