Tuttugu og þriggja ára kona í Texas, Sena­ida Mari­e Soto að nafni, á refsingu yfir höfði sér eftir að hafa kveikt í íbúð kærasta síns. Soto varð sótill þegar hún hringdi í kærasta sinn og ó­kunnug kona svaraði.

Í frétt KSAT, sem greinir frá málinu, kemur fram að Soto hafi verið sann­færð um að kærastinn hennar væri að halda fram­hjá henni. Fór hún því rak­leitt heim til kærasta síns þar sem hún kveikti í sófa í stofunni til að hefna sín. Þetta tók hún upp á mynd­band sem hún sendi svo kærastanum.

Eðli málsins sam­kvæmt urðu tölu­verðar skemmdir á í­búðinni og er tjónið metið á nokkrar milljónir króna. Til að bæta gráu ofan á svart kom í ljós að konan sem svaraði var alls ekki ást­kona kærastans heldur frænka hans.

Í frétt KSAT kemur fram að Soto hafi verið hand­tekin og kærð fyrir marg­vís­leg brot, þar á meðal inn­brot og brennu.