Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, baráttukona fyrir réttindum fatlaðs fólks hefur ásamt kærustunni sinni Báru Dís Guðjónsdóttir ákveðið að taka þátt í átaki í janúar og losa sig samtals við 930 hluti, ýmist með því að fara með þá í söfnun eða í endurvinnslu. 

Þær fluttu nýverið saman í litla íbúð og í samtali við Fréttablaðið segir Inga að átakið miði að því að auka vitundarvakningu um neysluhyggju og stuðla að heilbrigðara sambandi fólks við hlutina í sínu daglegu lífi. Átakið hafi gengið vel hingað til. 

Þægilegt því maður fær að byrja smátt

„Ég og Bára vorum sem sagt að flytja inn saman í haust með tvær búslóðir og það var einhvern veginn bara allt að springa og eins og allir nútildags eigum við alltof mikið af dóti.“

Inga vakti athygli á átakinu á Instagram síðu sinni fyrir rúmlega viku síðan en þær þurftu hvor um sig  að henda einum hlut þann 1. janúar siðastliðinn og svo tveimur þann 2. janúar og svo koll af kolli þar til þær hafa báðar losað sig við 465 hluti eða því sem nemur 930 hlutum, líkt og áður segir. 

„Við vorum auðvitað búnar að vera endalaust í tiltekt og að reyna að minnka við okkur, svo mér fannst hugmyndin um að henda einum hlut á fyrsta degi mánaðarins, svo tveimur á öðrum degi og svo framvegis svo sniðug af því að þá er maður neyddur til þess að kljást við smá í einu á hverjum degi í stað þess að taka heila helgi eða að reyna alltaf að troða því inn í dagskrána að taka einhverja tiltekt, sem er bara mjög erfitt í nútíma samfélagi.“

Ótrúlegt að sjá magn hluta sem safnast hafi saman

Í dag, þann 10. janúar er komið að því að þær þurfa að henda tíu hlutum hvor. Inga segir að átakið hafi gengið vel hingað til og það sé ótrúlegt að sjá það magn hluta sem hafi safnast saman í eigu þeirra beggja.

„Þetta gengur mjög vel og við erum búnar að henda miklu meiru en við eigum að vera búnar að gera. Við erum komnar í svona hundrað hluti núna. Lágmarkið verður auðvitað 930 hlutir en ef það fer eitthvað meira þá gerist það bara.

Það er líka bara klikkun að sjá hvað maður dregur fram marga kassa og skúffur af hlutum og maður hugsar bara „Bíddu er ég í alvöru búin að vera að flytja þetta með mér í mörg ár?“ 

Eitthvað dót sem manni finnst ekki lengur flott eða passar ekki í lengur eða er að geyma bara til þess að geyma. Þetta verður miklu auðveldara heldur en maður heldur og hefur orðið léttara með hverjum deginum.“

Inga nefnir að parið hafi til að mynda losað sig við sængurföt, trefla og plastílát sem notuð eru undir mat. Það séu hlutir sem hafi fylgt þeim báðum sem þær hafi ekki látið sér detta í hug að losa sig við fyrr en nú.

„Við byrjuðum bara fyrstu dagana á að taka dót héðan og þaðan úr íbúðinni sem við vissum að við vildum ekki hafa. Einn daginn fórum við svo yfir rúmfötin okkar, svo annan daginn bara yfir útiföt, þannig þetta hefur verið er blanda af öllu. Afmæliskort til dæmis, hvað á maður mikið af þannig kortum sem maður hefur ekki losað sig við?“

Vilja vekja athygli á neysluhyggju og sambandi fólks við hlutina sína

Inga segir að átakið snúist þannig um að endurhugsa hvað skipti mann raunverulegu máli, sambandið sem maður á í við sína eigin hluti og hugmyndir um neyslu. 

„Ég þarf kannski ekki að eiga öll jólakort frá ömmu minni öll síðustu ár, það er kannski tíminn með fólkinu manns sem meira máli. Auðvitað er eðlilegt að einhverjir hlutir hafa tilfinningagildi en maður þarf að velta fyrir sér hvaðan það kemur, hvort að það sé í alvöru tilfinningagildi eða hvort það komi frá hugmyndum úr samfélaginu. Við erum öll held ég föst í því að geyma hluti frá ömmum og öfum og látnum ástvinum. Ég upplifi þetta líka sem svona samviskubit,“ segir Inga sem segir að hún hafi einnig fengið á sig gagnrýni frá fólki sem bendir á að fólk sé stöðugt að kaupa nýja hluti sem fari svo bara í ruslið þegar fólk fær leið á þeim. Inga segist átakið einmitt snúast um að endurmeta þá neysluhyggju.

„Ég hef til að mynda átt í öfugum vandræðum við þetta, ég hef haldið í hluti endalaust, eins og til að mynda gömul handklæði af því mér fannst eins og ég myndi örugglega nota þá hluti. En hugmyndin með þessu átaki er einmitt að þessir 930 hlutir eiga sér framhaldslíf og munu ef til vill nýtast betur í öðrum höndum en þess í stað þarf maður að hugsa sig vel um í stað þess að kaupa bara og kaupa endalaust af nýjum hlutum.

Ég og Bára höfum líka oft lent í því í gegn um þetta átak að hugsa að okkur langi ekkert til að eiga ákveðið dót. En samt erum við með samviskubit við að losa okkur við eitthvað, til dæmis vegna einhvers skópars sem við munum nákvæmlega hvað kostaði okkur.

Þess vegna hefur þetta átak virkað svo vel hvað varðar þessa vitundarvakningu, vegna þess að maður verður meðvitaðri um það sem maður kaupir sér. Að maður kaupi ekki hluti af svona mikill hvatvísi. Ekki það að maður hafi verið brjáluð í neyslunni hingað til en við getum öll verið meðvitaðri um þetta,“ segir Inga sem segir mikilvægt að fólk endurhugsi neysluna og kaupi ekki endalaust nýja hluti sem það hendir svo um leið.