Ólafur Ragnar Gríms­son, fyrr­verandi for­seti Ís­lands, er staddur á Ísa­firði og í Twitter færslu segir hann að æsku­minningar sínar hafi flætt yfir sig þegar hann gekk inn á sitt gamla heimili að Tún­götu 3 á Ísa­firði.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá í júní gekk Ólafur að kaupum á sínu gamla æsku­heimili. Ólafur ólst upp í íbúð í suður­enda hússins á­samt for­eldrum sínum, þeim Grími Krist­geirs­syni og Svan­hildi Ólafs­dóttur Hjartar. Grímur var rakari og bæjar­full­trúi og var Svan­hildur hús­móðir en ljóst er að Ólafi hefur alla tíð verið hlýtt til heima­bæjar síns.

„Þegar ég gekk inn í gamla fjöl­skyldu­húsið á Ísa­firði fyrr í dag sem nýr eig­andi flæddu æsku­minningarnar yfir mig,“ skrifar Ólafur í ein­lægri færslu á miðlinum. „Bæjar­búar hafa í næstum heila öld kallað húsið Gríms­hús, eftir föður mínum,“ segir Ólafur jafn­framt.

Ljóst er að Ólafur hefur alla tíð borið sterkar taugar til síns gamla heima­bæjar. Þannig tók Ólafur sem for­seti á móti Margréti Þór­hildi II Dana­­drottningu og Hin­riki heitnum eigin­manni hennar í opin­berri heim­sókn hennar til Ísa­fjarðar þann 14. maí 1998, á­samt eigin­konu sinni heitinni Guð­rúnu Katrínu Þor­bergs­dóttur. Þá lýsti hann því yfir að Napóleonskaka sem hann fékk í París, væri ekki nándar nærri því eins góð og sama kaka úr bakaríinu á Ísa­firði.