Hvít pitsa er æðisleg. Hún er sögð hvít þar sem engin tómatsósa er á henni. Því er þó hægt að breyta eftir smekk hvers og eins. Hvít pitsa er eins og hvítlauksbrauð og má borða til dæmis með súpu eða pottréttum eða hafa sem forrétt þegar gestir eru í mat. Hér er æðisleg uppskrift sem allir ættu að prófa. Einnig er hægt að borða hana með salati sem heila máltíð.

Pitsudeig

300 g hveiti

1 tsk. salt

1 tsk. þurrger

200 ml volgt vatn

Hrærið saman hveiti, salt og þurrgeri. Setjið vatnið saman við og hnoðið. Bætið við vatni ef þarf. Látið hefast þar til deigið hefur tvöfaldast að stærð.

Það sem fer ofan á pitsuna:

2-3 msk. ólífuolía

3-4 hvítlauksrif

300 g mozzarella-ostur

½ tsk. þurrkað óreganó

1 tsk. basil

Hitið ofninn í 250°C. Það væri mögulegt að gera deigið áður en haldið er til vinnu að morgni. Þá er það tilbúið fyrir kvöldmat. Skiptið deiginu í tvennt og fletjið út í tvær pitsur. Penslið deigið með ólífuolíu og stráið rifnum hvítlauk yfir. Það má líka útbúa hvítlauksolíu og hella yfir. Blandið ostinum yfir ásamt kryddinu. Bakið í um það bil sjö mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður. Það má setja hvaða krydd sem er yfir pitsuna og vitaskuld má líka bæta við alls kyns ostum, til dæmis gráðaosti.