Katrín Tanja Davíðsdóttir afrekskona í Crossfit  er komin með nýjan æfingafélaga, og það ekki af verri endanum, afi hennar, Helgi Ágússton fyrrum sendiherra er farin að æfa Crosfitt af miklum móð.

„ Afastelpan dró mig í  þetta,“ segir Helgi Ágússton  aðspurður um það hvernig á því stæði að maður á áttræðisaldri væri farin að æfa Crossfit, „ og staðreyndin er að mér hefur aldrei liðið betur.“ 

Helgi sem verður 77 ára núna í október segist alsæll með þá ákvörðun að drífa sig af stað. Hann segir að fyrst hafi hann farið nokkrum sinnum með dótturdóttur sinni Katrínu Tönju í æfingasal þegar að hann fylgdi henni eftir til Boston en svo vatt þetta upp á sig þegar að heim var komið.

„Ég var á æfingu í morgun og það gekk, vel. Við erum nokkrir karlar að æfa saman. Þetta gengur nokkuð skipulega fyrir sig, þjálfarinn setur okkur fyrir æfingaplan dagsins þegar að við mætum. Og til dæmis í morgun þá byrjuðum við á hjólinu, gengum rösklega nokkra hringi í æfingasalnum. Við gerum hnébeygjur, og köstum þungum bolta í vegg og fleira í þeim dúr. Ég er að verða góður með stöngina í réttsöðulyftunum. Ég finn að ég styrkist með hverri æfingu. Og svo er ég allur að liðkast og finn að bólgur eru að fara úr líkamanum.“

Þeir sem að æfa af miklum móð þurfa að huga vel að næringunni en hollt og gott mataræði er undirstaðan að góðum árangri en er Katrín Tanja farin að skipta sér af mætaræði afans? „Ég fór í mat með henni um daginn við fórum í Bakarameistarann og þar fór ég beint í salatið og líkaði vel. Ég hef verið að huga að vigtinni ég var komin yfir 100 kíló og hef aldrei fyrr verið svona þungur en nú eru nokkur kíló farin þannig að þetta stefnir allt í rétt átt.“

Helgi ræðst ekki á garðinn þar sem að hann er lægstur, þeir vita sem til þekkja að Crossfit er sérstaklega krefjandi íþrótt og því mikilvægt að menn ætli sér ekki um of í upphafi.

„Ég er áttræðisaldri og það er ekki sjálfgefið að menn á mínum aldri geti æft þetta sport. Þegar að ég fór í skoðun í Hjartavernd var ég spurður til hvers að ég væri að leita til þeirra og ég svaraði því til að ég væri farin að bera meiri umhyggju fyrir sjálfum mér en ég hef gert áður.“

En félagarnir eru þeir ekki til í að koma? „Ég hef verið að tala við gamla körfubolta vini mína frá því að ég æfði körfu með KR og fyrrum vinnufélaga, þeir eru volgir. En ég segi þeim bara að kíkja á eina æfingu og sjá svo til. Það virkaði fyrir mig“.

Helgi Ágústsson starfaði sem sendiherra Íslands um árabil meðal annars í London og Kaupmannahöfn, hann var jafnframt ráðuneytisstjóri um nokkurt skeið.


Þrátt fyrir að hafa látið af störfum fyrir um áratug þá er hann langt frá því vera sestur í helgan stein, hann fór nýlega að starfa með kór eldri borgara í Kópavogi og virkur í félagsstarfinu þar, en eins og Helgi segir sjálfur; „ Það er til líf utan utanríkisráðuneytisins“.