Söngleikurinn um Matthildi, sem byggður er á samnefndri bók Roald Dahl, verður frumsýndur í Konunglega danska leikhúsinu í Kaupmannahöfn á fimmtudaginn. Sýningin er unnin í samstarfi við Óperuna í Malmö en með annað aðalhlutverkið fer tíu ára gamall íslenskur strákur, Bjarni Berg Gíslason.

„Ég sá leikritið í Borgarleikhúsinu þegar ég var svona átta ára,“ segir Bjarni sem búið hefur í Danmörku síðan hann var eins árs. Þetta er í fyrsta sinn sem Bjarni tekur að sér leikhlutverk, og það má greina mikla eftirvæntingu þegar hann lýsir ferlinu.

„Fyrst fóru sex hundruð börn í áheyrnarprufur,“ segir hann. „Þar áttum við að syngja dönsk lög.“ Þegar áheyrnarprufum var lokið voru tuttugu og sjö börn valin til þess að taka þátt í sýningunni. „Þá fór ég í Matilda-skólann, þar sem okkur var kennt að dansa, leika og syngja,“ segir Bjarni. Næst fóru fram prufur fyrir leikritið, og hlutverkum úthlutað til barnanna tuttugu og sjö.

Strákurinn í kökunni

„Ég fékk næststærsta hlutverkið, sem er Bruce. Það er strákurinn í kökunni,“ segir hann og hlær, og vísar til frægrar senu úr sögunni þar sem persóna Bruce hámar í sig stóra súkkulaðiköku. Bjarni segir að það sé líka eftirlætissenan hans á sviði. „Þetta er svona platkaka, og ofan á henni er súkkulaðibúðingur.“

Bjarni fer með hlutverkið ásamt tveimur öðrum, og því tekur hann þátt í þriðju hverri sýningu af þeim þrjátíu og þremur sem til stendur að setja upp. Generalprufa verksins var á laugardaginn og á fimmtudaginn er frumsýning.

Frí í skólanum

Móðir Bjarna, Helga Bjarnadóttir, segir soninn hafa verið upptekinn síðustu mánuði. „Þetta eru æfingar í sex tíma á dag á hverjum degi, síðan í sumar. Hann er búinn að vera svolítið mikið í fríi frá skólanum, og verður ekkert í skólanum þangað til á föstudaginn. „Þá á ég að sýna fyrir krakkana í skólanum,“ segir Bjarni. „Ég ætla að leyfa þeim að sjá!“

Bjarni segir að leikhópurinn sé skemmtilegur, en hann er yngstur í hópnum og elstu krakkarnir eru fimmtán ára gamlir.

„Það eru margir strákar en líka margar stelpur, fullt af krökkum,“ segir hann. „Ég er ekki búinn að hafa mikinn tíma til að vera með gömlu vinunum en ég er búinn að eignast 26 nýja vini.“