Hér eru tillögur að réttum sem eiga eftir að kitla bragðlaukana og steinliggja í partíi eða á sjónvarpskvöldi.

Freistandi sælkerabakkar

Upplagt er að setja saman skemmtilegan osta- og sælkerabakka. Þá er fjölbreytnin ráðandi og alltaf freistandi að tefla saman ljúffengum ávöxtum, ostum, hráskinku, pistasíuhnetum og fleira góðgæti.

Á bakkanum hér á eftir er geitaostur, hráskinka, kryddpylsa, hrátt nautakjöt, brómber, hindber, blæjuber, vínber, kryddkurl, pistasíuhnetur, hrökkkex, perur, ferskja, reyktur lax og foie gras.

Með reykta laxinum er borinn fram sýrður rjómi sem er toppaður með steinselju og foie gras sem er toppað með grófum, svörtum saltflögum. Vert er að leyfa hugmyndafluginu að ráða hvað fer á bakkann og svo getur hver og einn valið sína uppáhalds osta, ávexti, sæta bita eða hvað eina sem hann langar til að bjóða upp á. Svo er lag að vera með bakaðan brie-ost með þessum sælkerabakka.

Leyfum hugmyndafluginu að ráða hvaða krásir fara á veislubakkann.
Hér er ljúffengt, litríkt og brakandi ferskt andasalat með sumarívafi, toppað með frískandi appelsínudressingu.

Ljúffengt andasalat

1 andalæri
Ferskt blandað salat
2-3 mandarínur
Hindber
Ferskar sprettur
1 pera

Létt dressing:


Sýður rjómi
Safi úr appelsínu

Ferskt andasalat er ­kærkomið á þessum árstíma og tekur örskamma stund að útbúa. Rífið niður andakjöt og setið á bakka. Setjið blandað salat með, ásamt mandarínulaufum, hindberjum og ferskum sprettum. Salatið er svo toppað með perubitum og léttri dressingu með, sýrðum rjóma með appelsínukeim.

Bakaður brie-ostur með mangó chutney er sælkeraréttur sem fáir standast.

Bakaður brie-ostur með mangó chutney

1 stk. brie-ostur að eigin vali
½ krukka mangó chutney
Valhnetur eftir smekk

Byrjið á að hita ofninn í 200°C. Setjið ostinn í eldfast mót eða litla pönnu sem má fara inn í bakarofn. Setjið mangó chutney yfir ostinn, hafið magnið eftir smekk og toppið ostinn með nokkrum valhnetum. Bakið í um það bil 15 mínútur eða þar til osturinn hefur bólgnað aðeins út án þess að opnast. Berið fram með súrdeigsbrauði eða kexi að eigin vali.


Chili con Carne með nýrri útfærslu

500 g nautahakk
1 laukur, smátt skorinn
2–3 hvítlaukar (þessir í körfunni, geiralausir), smátt skornir
2 stk. ferskt rautt chili smátt skorið
1 tsk. chiliduft
1 tsk. paprikuduft
1 tsk. cumin
300 ml soðið vatn
1 msk. nautakraftur
1 dós niðurskornir tómatar
2 msk. tómatpúrra
½ tsk. oreganó
1 dós rauðar nýrnabaunir
Salt og pipar eftir smekk

Meðlæti

Tortillabátar eða mini tortillur
Sýrður rjómi
Nachos-flögur
Rifinn mozzarellaostur

Byrjið á að steikja lauk við lágan hita á djúpri pönnu eða í potti þar til hann er orðinn mjúkur. Bætið þá hvítlauk, fersku chili, chilidufti, paprikudufti og cumin saman við.

Steikið nautahakkið á pönnu við háan hita og brúnið það. Setjið hakkið síðan saman við laukinn og hitt hráefnið. Bætið við nautateningnum ásamt 300 ml af heitu vatni (getið forsoðið vatnið í tekatli), hellið því út á pönnuna/pottinn ásamt tómötum, tómat­púrru og oreganó. Látið malla í um það bil 20 mínútur.

Bætið þá nýrnabaunum saman við og látið malla í 10 mínútur til viðbótar. Saltið og piprið eftir smekk og bætið við chilikryddi ef þurfa þykir. Mikilvægt er að leyfa réttinum að standa í 10 mínútur áður en hann er borinn fram.Þegar rétturinn er tilbúinn er lag að setja eina til tvær meðalstórar ausur af blöndunni í tortillabáta eða á mini tortillapönnukökur, toppa síðan með sýrðum rjóma, rifnum osti og nachos-flögum.

Raðið á bretti eða bakka og berið fram. Gott er að hafa sýrðan rjóma, rifinn ost og nach­os-­flögur til hliðar svo hver og einn geti bætt við meðlæti eftir smekk.

Freistandi bakki með ostum, kexi, berjum, ávöxtum, hnetum, hráskinku, reyktum lax og foie gras.