Bækur

Aðferðir til að lifa af

★★★★

Guðrún Eva Mínervudóttir

Útgefandi: Bjartur

Fjöldi síðna: 166

Það skrifar enginn eins og Guðrún Eva Mínervudóttir. Frá fyrstu bók hennar hefur hún tamið sér sérstakan stíl til að lýsa heiminum eins og hún og sögupersónur hennar sjá hann, stíl sem er ljúfur og nánast rómantískur og blekkir lesandann næstum til að halda að allt sé í lagi. En bara næstum, aldrei alveg því á þennan mjúka hátt tekst henni að lýsa grimmd, harðneskju og vonleysi á einstaklega næman og ágengan hátt og kemst oft að kjarna sem er sætur og súr í senn, gegnum óraunveruleikann að hinu raunverulega og gegnum hið raunverulega að blekkingunni. Þetta er einnig raunin um þessa bók sem fjallar, eins og titillinn gefur til kynna um aðferðir persónanna til að takast á við það sem lífið hefur búið þeim.

Sagan gerist í smáþorpi rétt hjá sumarbústaðalandi. Við kynnumst fjórum aðalpersónum, ekkjunni Borghildi sem rekur gistiaðstöðu, unglingsstúlkunni Hönnu sem berst við átröskun, Aroni Snæ, vanræktum ellefu ára dreng með þungan farangur og öryrkjanum Árna sem þjáist og vonar í óendurgoldinni ást. Öll standa þau á tímamótum og breytast á þeim fáu dögum þegar sagan gerist. Líf þessara fjögurra snertast og þau snerta einnig við hvert öðru, rétta hjálparhendur, byggja brýr, mynda tengsl.

Lífið með öllum sínum sársauka er umfjöllunarefni bókarinnar, vonleysið sem getur falist í því að vera til en líka fegurðin í því að vera til með öðrum. Von sem kviknar og slokknar er ákveðið stef í bókinni, einnig hvaða áhrif fortíðin hefur, hvort og þá hvernig hún endurtekur sig.

Hryllingur sem Borghildur virðist hafa komið í veg fyrir með því að bjarga konunni í sumarbústaðnum gerist samt, barátta Hönnu við átröskunina er stöðugt í gangi, Árni missir það sem virðist hafa gefið lífi hans gildi og stendur frammi fyrir því að þurfa að velja milli lífskraftsins og þægindanna þegar kemur að hundinum og Aron Snær gerir mistök átta ára gamall sem munu fylgja honum til æviloka, bæði opinberlega og innra með honum sjálfum. Þau hafna draumum sínum þegar þeir banka upp á af því þeir rætast ekki rétt, lífið er vonbrigði, árekstrar, skipbrot. Á móti teflir Guðrún Eva ekki voninni um að úr rætist heldur mikilvægustu hlið mennskunnar, samfélagi, samhjálp, vináttu, tengslum. Lífið er ekki vonglaður skopparabolti sem veltur áfram á tilviljunum heldur þurfum við að taka það í okkar hendur, ákveða hvaða fólk við ætlum að vera. Til að lifa af þetta kaos af vonbrigðum og dauða þurfum við hvert annað.

Undir og í takt við þetta allt hjalar íslenska sumarið, með haustið og veturinn yfirvofandi, fyrirboðann um gleðina sem tefur tæpa stund en treginn lengi, lengi eins og segir í ljóði Hannesar Péturssonar.

Guðrún Eva er einstaklega næmur höfundur, bæði á mannlegar tilfinningar og mennskuna og á blæbrigði tungumálsins. Henni tekst hér sem endranær að draga upp ljóslifandi myndir af aðstæðum og tilfinningunum sem þær vekja. Hið hversdagslega verður ævintýralegt, hið ævintýralega eða hryllilega nánast hversdagslegt og lesandinn er heillaður, dregst inn í textann og söguheiminn og langar ekki að fara, jafnvel þó þar sé ekki alltaf jafn skemmtilegt um að litast.

Aðferðir til að lifa af er falleg og áleitin saga um fólk í öllum sínum einfalda og flókna veruleika.

Niðurstaða: Falleg og áleitin bók um fjölmargar hliðar þess að lifa það af að vera manneskja.