Eyþór Ingi Eyþórsson, eða Mister Sister eins og hann hefur verið titlaður í Eurovision, segir aðeins eina konu eiga hug hans og hjarta.

Eyþór Ingi er bróðir þeirra Siggu, Betu og Elínar Eyþórsdætra og keppir með þeim fyrir hönd Íslands í Eurovision, með laginu Með hækkandi sól.

Fréttablaðið greindi frá því fyrir nokkru að Eyþór hefði slegið rækilega í gegn í viðtölum í Tórínó, og hafi verið kallaður sætasti strákurinn í borginni.

Aðspurður hvort þetta væri rétt, hvort að hann væri sætasti strákurinn í Tórínó, hikaði Eyþór í svari en systur hans, Sigga, Beta og Elín, voru fyrri til.

„U, já!,“ sögðu systurnar allar um bróður sinn.

Eyþór Ingi segir þetta mikinn heiður en vill að sjálfsögðu hafa það alveg að hreinu að hann sé einnar konu maður.

„Takk fyrir þetta hrós en það er aðeins ein sem fær mig og hún heitir Sigga Karen og hún bíður eftir mér heima,“ sagði Eyþór í samtali við Fréttablaðið. Hann talar hér um eiginkonu sína og barnsmóður, Sigríði Karen Björgvinsdóttur, sem hann sér ekki sólina fyrir.