Nýjasta færsla Taylor Swift hefur vakið mikla athygli meðal aðdáenda hennar. Færslan virðist í fyrstu gefa lítið upp; söngkonan birti mynd af sér uppi í sófa í litlum kofa en undir myndina skrifaði hún: „Ekkert mikið í gangi akkúrat núna“.

Eins og margir vita þá er Tay Tay þekkt fyrir að fela skilaboð í færslum sínum og tónlistarmyndböndum og telja margir að hún sé að gefa skyn að hún sé annað hvort byrjuð eða búin að taka upp allt sitt gamla efni.

Seldi masterana hennar fyrir 300 milljónir dala

Líkt og Fréttablaðið hefur áður greint frá eignaðist Scooter Braun réttinn að sex plötum söngkonunnar þegar hann keypti útgáfufyrirtækið Big Machine. Hann fær því allar streymistekjur fyrir plöturnar Taylor Swift, Fearless, Speak Now, Red, 1989 og Reputation. Hann seldi nýlega alla masterana af þessum plötum til fyrirtækis sem heitir Shamrock Holdings fyrir 300 milljónir dala og mun áfram fá tekjur af þeim.

Taylor Swift hefur síðan þá gefið út plötuna Lover og Folklore undir eigin nafni og hefur barist fyrir því að eignast réttinn á gamla efni sínu á ný. Hún hefur áður lýst því yfir að hún vilji taka upp efnið sitt á ný svo aðdáendur hennar geti hlustað á gömlu plöturnar án þess að Scooter Braun fái tekjurnar. Söngkonan var vægast sagt miður sín þegar Braun keypti útgáfufyrirtækið en hún hefur sakað hann um að leggja sig í einelti áður.

Skjáskot úr tónlistarmyndbandinu fyrir lagið 22.

Taylor Swift hefur áður birt þessi sömu skilaboð, áður en hún gaf út Folklore, sama dag og hún lauk upptökum á einu vinsælasta laginu á plötunni, Cardigan. Einnig klæddist hún bol með þessari áletrun í tónlistarmyndbandinu við lagið 22.

Fjölmargir benda á að hún byrjar setninguna á lágstaf en ekki hástaf. Hún notaði hástaf áður en hún birti Folklore, þ.e. upphafssetningu þegar hún gaf frá sér nýja plötu. Nú er lágstafur, sem gæti þá táknað framhald, þ.e. að hún sé að taka upp sitt gamla efni. Oftúlkun? Nei, svo sannarlega ekki, því söngkonan pælir í hverju einasta smáatriði þegar hún sendir aðdáendum sínum leyniskilaboð.