Taylor Swift kom aðdáendum sínum rækilega á óvart þegar hluti af nýrri upptöku af hinu geysivinsæla lagi Love Story af plötunni Fearless birtist í myndbandi á Twitter síðu leikarans Ryan Reynolds.

Líkt og aðdáendur Taylor Swift vita hefur söngkonan unnið hörðum höndum við að taka upp allt sitt gamla efni eftir að hún sagði skilið við útgáfufyrirtækið Big Machine.

Umboðsmaðurinn umdeildi Scooter Braun, sem Taylor Swift hefur sakað um einelti, eignaðist réttinn að sex plötum söngkonunnar: Taylor Swift, Fearless, Speak Now, Red, 1989 og Reputation. Hann seldi nýlega alla masterana af þessum plötum til fyrirtækis sem heitir Shamrock Holdings fyrir 300 milljónir dala og mun áfram fá tekjur af þeim.

Hún hefur áður lýst því yfir að hún vilji taka upp efnið sitt á ný svo aðdáendur hennar geti hlustað á gömlu plöturnar án þess að Scooter Braun fái tekjurnar.

Taylor Swift staðfesti að lagið í myndbandinu sem Ryan Reynolds deildi væri af nýrri upptöku af laginu og að hún hafi gefið honum góðfúslegt leyfi til að birta það. Myndbandið er úr auglýsingu þar sem djöfullinn hittir sálufélaga sinn, holdgerving ársins 2020.

Ryan Reynolds og eiginkona hans, leikkonan Blake Lively, eru góðir vinir söngkonunnar og mætti segja að þau hafi veitt Taylor mikinn innblástur þegar hún vann að nýjustu plötu sinni Folklore. Talið er lagið Betty vísi í nafn dóttur Blake Lively og Ryan Reynolds en það kom út áður en parið tilkynnti um nafn dóttur sinnar.

Lagið fjallar um strák sem biður stúlku að nafni Betty afsökunar fyrir að hafa klúðrað sambandi þeirra. Þó að Taylor hafi sagt lagið vera frá sjónarhorni karlmanns þá fær það óneitanlega að eiga sérstakan sess í hjarta LGBTQ aðdáenda hennar.