Aðdáendur Britney Spears hafa upp á síðkastið birt flóð athugasemda til að hvetja hana til að klæðast ákveðnum litum til að senda þeim skilaboð um hvort henni líði illa.

Poppstjarnan hefur verið dugleg að birta myndir og myndbönd á Instagram og Tik Tok en hún þarf alltaf leyfi frá föður sínum áður en hún birtir færslur.

Árið 2008 var Britney svipt sjálfræði og hafa Jamie Spears, faðir Britney, og lögfræðingurinn Andrew Wallet verið lögráðamenn hennar síðan.

Britney birti myndband á dögunum þar sem hún sagðist ætla að svara spurningum aðdáenda sinna og héldu því margir niður andanum og bjuggust við að hún myndi svara stóru spurningunni.

Þess í stað talaði um uppáhalds lagið sitt, stað og mat. Ótalmargir bentu á að hún virtist mjög taugaóstyrk og spennt í myndbandinu.

Þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem aðdáendur söngkonunnar hafa lýst yfir áhyggjum. Þvert á móti er heil hreyfing sem kallast „Free Britney Movement“ á samfélagsmiðlum til að vekja athygli á stöðu söngkonunnar.

Nú hafa aðdáendur einnig reynt að vekja athygli á stöðunni í gegnum kínverska miðilinn Tik Tok.